[sam_zone id=1]

Tap gegn Moldavíu

Karlalandslið Íslands mætti í dag liði Moldavíu í undankeppni EM. Leikurinn fór fram í Chisinau og var næstsíðasti leikur liðanna í undankeppninni.

Bæði lið höfðu leikið fjóra leiki í keppninni af þeim sex sem leiknir eru í heildina. Ísland hafði tapað öllum leikjum sínum en Moldavía hafði sigrað tvo og tapað tveimur. Moldavía þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að eiga möguleika á að komast áfram í lokakeppni EM.

Byrjunarlið Íslands í dag var skipað eftirfarandi leikmönnum. Máni Matthíasson í uppspili, Alexander Arnar Þórisson í díó, Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir á miðjunni, Theódór Óskar Þorvaldsson og Ævarr Freyr Birgisson á kantinum og Arnar Birkir Björnsson var frelsingi.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og leiddu fyrri hluta fyrstu hrinu. Ísland hélt í við þá og jafnaði leikinn 9-9. Moldavía tók þá við sér og raðaði inn stigum. Sóknarleikur og uppgjafir Moldavíu reyndust íslenska liðinu erfiðar og Moldavía náði 15-9 forystu. Bjarki Benediktsson kom inn fyrir Alexander og lék seinni hluta hrinunnar. Moldavía sigraði hana þó nokkuð örugglega, 25-17.

Önnur hrinan var jöfn til að byrja með og gekk spilið vel hjá Íslandi. Uppgjafir stjörnuleikmanns Moldavíu, Dimitri Bahov, reyndust þó erfiðar og náði Moldavía í kjölfar þeirra 11-6 forystu. Christophe Achten, þjálfari Íslands, tók leikhlé í stöðunni 15-9 en íslenska liðið hafði átt eriftt uppdráttar í sóknarleik sínum. Benedikt Baldur Tryggvason kom inn fyrir Ævarr Frey í hrinunni og náði Ísland aðeins að rétta úr kútnum. Það var þó ekki nóg og sigraði Moldavía 25-18.

Benedikt byrjaði þriðju hrinuna í stað Ævars en að öðru leyti var byrjunarliðið það sama. Moldavía leiddi fljótt í hrinunni en Ísland var þó ekki langt undan. Íslensku strákarnir virtust vera nokkuð vel stemmdir og spiluðu vel. Uppgjafir Moldavíu voru þó sterkar og hjálpuðu liðinu að síga fram úr. Sigþór Helgason, Ragnar Ingi Axelsson, Galdur Máni Davíðsson og Ævarr Freyr komu inn í hrinunni og þar með fengu allir leikmenn Íslands að spreyta sig í leiknum. Að lokum sigraði Moldavía hrinuna 25-11. Leiknum lauk því með 3-0 sigri Moldavíu.

Mihai Voleanschii var stigahæsti maður leiksins en hann skoraði 12 stig. Alexander Arnar var stigahæstur í liði Íslands með 8 stig. Ísland er því enn stigalaust í neðsta sæti síns riðils og á enn eftir að sigra hrinu. Síðasti leikur liðsins verður heimaleikur gegn Slóvakíu. Hann fer fram í Digranesi klukkan 20:00 á miðvikudagskvöld. Fyrr um daginn leikur kvennalið Íslands gegn Belgíu í sínum síðasta leik.