[sam_zone id=1]

Tap gegn sterkum Slóvenum

Íslenska kvennalandsliðið í blaki spilaði við Slóveníu í dag ytra, í undankeppni EM. Fyrri leikur liðanna fór fram 19. ágúst sl. í Digranesi. Sá leikur fór 3-0 fyrir Slóvenum, 25-18, 25-16 og 25-13. 

Byrjunarlið íslenska liðsins í dag var skipað þeim, Matthildi Einarsdóttur í uppspili og Thelmu Dögg Grétarsdóttir í díó, Elísabetu Einarsdóttur og Heiðu Elísabetu Gunnarsdóttur á köntunum, Hönnu Maríu Friðriksdóttur og Erlu Rán Eiríksdóttur á miðjunum og Birtu Björnsdóttur í stöðu frelsingja.  

Eftir ágætis byrjun komst slóvenska liðið yfir og í stöðunni 10-4 tók Borja, þjálfari íslenska liðsins, leikhlé. Stelpurnar áttu góðan kafla eftir leikhléið og náðu að minnka muninn með sterkum uppgjöfum frá Elísabetu og sóknum frá Thelmu. Íslensku stelpurnar áttu ágætis kafla í hrinunni en áttu erfitt uppdráttar gegn feyki sterkum hávörnum slóvenska liðsins, sem skoraði 6 stig úr hávörn í fyrstu hrinunni. Slóvenska liðið vann hrinuna 25-12. 

Ein skipting var gerð á byrjunarliði annarrar hrinu þegar Líney Inga Guðmundsdóttur kom inn á í stað Heiðu Elísabetar. Aftur byrjaði íslenska liðið ágætlega en liðið tók leikhlé þegar gestirnir voru komnir 7-3 yfir. Slóvenarnir juku muninn hægt og þétt í hrinunni sem íslenska liðið réð lítið við og kláruðu hrinuna 25-11.

Gígja Guðnadóttir og Eldey Hrafnsdóttir bættust við hópinn í byrjun 3. hrinu á miðju og kanti. Slóvenska liðið byrjaði hrinuna af krafti og komst í 4-0. Þá tók Borja leikhlé. Stelpurnar okkar náðu að saxa rækilega á forskotið eftir leikhléið með sterkum uppgjöfum frá Thelmu Dögg og minnkuðu muninn í 1 stig 5-4. Það tóku Slóvenar ekki í mál og spyrntu frá sér og komust í 13-5, þegar íslenska liðið tók sitt síðara leikhlé. Ágætis sprettir íslenska liðsins dugðu ekki til og slóvenska liðið vann 3. hrinu 25-12 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstar í liði íslenska liðsins voru Thelma Dögg Grétarsdóttir með 10 stig og Elísabet Einarsdóttir með 5 stig. 

Síðasti leikur liðsins í undankeppni EM fer fram í Digranesi, miðvikudaginn 9. janúar klukkan 17, þegar liðið mætir Belgum.

Mynd: cev.lu