[sam_zone id=1]

Thelma Dögg er blakkona ársins 2018

Thelma Dögg Grétarsdóttir hefur verið valin blakkona ársins 2018 af stjórn BLÍ.

Thelma Dögg lék með liði VBC Galina í svissnesku deildinni á tímabilinu 2018/19 áður en hún skipti yfir til Nitra í Slóvakíu. Thelma lék gríðarstórt hlutverk í liði Galina sem átti í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni svissnesku deildarinnar. Liðið komst naumlega í úrslitakeppnina og lék þar um 5.-8. sæti. Galina lauk úrslitakeppninni svo í 8. sæti.

Eftir skipti sín til Nitra hefur Thelma einnig leikið stórt hlutverk þar en liðið er nú um miðja úrvalsdeildina í Slóvakíu þegar stutt er eftir af deildarkeppninni þar í landi.

Með landsliði Íslands hefur Thelma verið einn öflugasti sóknarmaður liðsins undanfarin ár og í sumar lék hún með liðinu í undankeppni EM. Þá mætti Ísland liðum Slóveníu, Belgíu og Ísrael. Thelma er einungis 21 árs gömul en hefur nú þegar leikið 40 leiki með landsliði Íslands.

Við óskum Thelmu innilega til hamingju með titilinn og árangur hennar á árinu 2018.