[sam_zone id=1]

Nitra tapaði gegn Presov

Thelma Dögg og félagar hennar í Nitra töpuðu þriðja leik sínum í röð í gærkvöldi.

Liðið hóf deildarkeppnina ill en tók frábæra skorpu sem hjálpaði liðinu að halda í við toppliðin. Nú hefur Nitra hins vegar tapað þremur leikjum í röð og er í harðri baráttu um miðja deild þar sem mörg lið eru nokkuð jöfn. Lið Presov, sem sigraði Nitra í gær, hefur nú bæst við þennan hóp og eru einungis 4 stig sem skilja að Nitra (4. sæti) og Presov (7. sæti).

Leikurinn í gær hófst með nokkru jafnræði en um miðja fyrstu hrinu tók Presov yfir. Staðan var jöfn 15-15 en Presov valtaði yfir Nitra í seinni hluta hrinunnar og sigraði hana 25-18. Í annarri hrinu virtist Presov ætla að halda sínu skriði og komst 6-1 yfir en þá vaknaði Nitra til lífsins. Liðið komst smám saman inn í hrinuna og vann hana 22-25 eftir að hafa skorað síðustu 4 stig hrinunnar. Þá skoraði Thelma síðasta stigið beint úr uppgjöf.

Presov byrjaði aftur vel í þriðju hrinu en í þetta skiptið hélt liðið forystunni út hrinuna. Nitra náði sér aldrei á strik og lauk hrinunni með öruggum sigri Presov, 25-15. Nitra hóf þó fjórðu hrinu frábærlega og leiddi 5-11. Ekki dugði það þó og Presov kom fljótt til baka. Seinni hluti hrinunnar var svo eign Presov sem vann hana 25-18 og leikinn þar með 3-1.

Thelma Dögg skoraði 10 stig í leiknum en næst á dagskrá hjá henni eru æfingar hjá kvennalandsliði Íslands. Ísland leikur tvo leiki í byrjun janúar en fyrri leikurinn er útileikur gegn Slóveníu þann 5. janúar. Nitra hefur svo keppni á ný 12. janúar þegar liðið mætir Kezmarok á heimavelli.