[sam_zone id=1]

Góð byrjun dugði ekki til hjá Nitra

Í kvöld mættust lið Nitra og Nové Mesto á heimavelli Nové Mesto í slóvakísku úrvalsdeildinni. Liðin eru bæði í harðri baráttu við lið Bilíkova um 3. sæti deildarinnar.

Fyrir leikinn var Nitra í 4. sæti með 17 stig en Nové Mesto í 5. sæti með 13 stig. Því var leikurinn í dag gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, enda stutt eftir af deildarkeppninni í Slóvakíu. Lið Bilíkova var svo í 3. sætinu með 20 stig. Liðin tvö frá Bratislava eru alein á toppi deildarinnar með 33 og 32 stig.

Leikur dagsins hjá Thelmu Dögg og félögum í Nitra hófst með látum og var fyrsta hrina æsispennandi. Eftir góða byrjun Nitra komst Nové Mesto yfir og leiddi 19-15. Þá hófst endurkoma Nitra og náðu þær að sigra hrinuna, 24-26, eftir að hafa skorað 3 síðustu stig hrinunnar. Þetta var því miður langbesta hrina Nitra í leiknum og átti lið Nove Mesto eftir að taka leikinn yfir.

Heimakonur byrjuðu frábærlega og komust 7-0 yfir og Nitra náði sér engan veginn á strik í hrinunni. Nitra átti vissulega fínan kafla um miðja hrinuna en það dugði alls ekki til og Nové Mesto unnu hrinuna 25-16. Það sama mátti segja um þriðju hrinuna en þar komust heimakonur í 7-1. Að lokum sigruðu þær hrinuna með sama mun og aðra hrinu, 25-16.

Fjórða hrina gekk betur hjá liði Nitra og þær leiddu um miðja hrinuna. Þegar þær virtust vera með hrinuna í höndum sér hófst góður kafli hjá Nové Mesto og náðu þær forskotinu. Undir lok hrinunnar voru heimakonur svo mun sterkari og sigruðu hrinuna 25-19. Þar með tryggðu þær sér 3-1 sigur og 3 mikilvæg stig.

Thelma Dögg skoraði 12 stig í dag, þar af 4 úr uppgjöf. Lið Nové Mesto er nú aðeins einu stigi á eftir Nitra en eftir leikinn er Nitra í 4. sæti með 17 stig og Nové Mesto í 5. sæti með 16 stig, eins og lið Kezmarok. Næsti leikur Thelmu og félaga er strax á þriðjudag gegn VK Presov. Leikurinn fer fram á heimavelli Presov og hefst klukkan 17:00 á íslenskum tíma.