[sam_zone id=1]

Afturelding sigraði maraþonleik í Neskaupstað

Þróttur Nes og Afturelding mættust aftur í Mizunodeild karla í dag og var spennan ekki minni en fyrri daginn.

Þróttarar byrjuðu frábærlega og náðu strax góðu forskoti. Þeir héldu svo áfram að bæta við forystuna og sigldu fyrstu hrinunni örugglega heim með 25-14 sigri. Meira jafnræði var með liðunum í annarri hrinu en með góðum kafla breytti Afturelding stöðunni úr 7-7 í 9-14 og héldu yfirhöndinni út hrinuna. Þeir sigruðu hana 22-25. Þróttarar náðu mest að minnka muninn í eitt stig, 22-23, en komust ekki nær.

Þriðja hrinan vara nokkuð lík annarri hrinunni en liðin voru hnífjöfn fram undir miðja hrinu. Í stöðunni 14-15 átti Afturelding annan frábæran kafla og komust 15-23 yfir. Sóknarleikur Aftureldingar var sterkari en Þróttara og þeir röðuðu inn stigum. Hrinunni lauk með 16-25 sigri Aftureldingar og þeir komnir í vænlega stöðu, 1-2 yfir.

Fjórða hrinan var sú daprasta á að horfa í leiknum. Þróttarar léku vel en lið Aftureldingar sýndi algjört vonleysi og gekk ekkert upp hjá þeim. Heimamenn náðu mest 12 stiga forystu og unnu hrinuna að lokum 25-14. Þá var komið að oddahrinu og ljóst að spennan yrði mikil. Afturelding leit vel út fyrri hluta leiksins en nú höfðu Þróttarar meðbyrinn sín megin.

Þróttarar byrjuðu hrinuna betur og voru snemma 6-3 yfir. Afturelding svaraði strax og var staðan allt í einu orðin 7-9 þeim í vil. Þreyta virtist hafa mikil áhrif á leikmenn beggja liða í oddahrinunni og skoruðu bæði lið fjölmörg stig úr hávörn.

Upphækkun þurfti til að skera úr um sigurvegara þar sem að hvorugt lið gaf tommu eftir. Í stöðunni 16-16 varð mikill hamagangur þegar leikmaður Aftureldingar skoraði sóknarstig úr afturlínu. Þróttarar virtust handvissir um að sóknin hafi verið ólögleg en dómarar leiksins stóðu við sitt og Afturelding hélt stiginu. Eins og í leiknum í gær var þessi ákvörðun stór og í þetta skiptið féll hún með Aftureldingu. 

Þetta stig var þó ekki nóg til að tryggja sigurinn og enn hélt oddahrinan áfram. Það var svo lið Aftureldingar sem vann hrinuna 20-22 eftir hreint ótrúlegan spennuleik. Miguel Angel Ramos Melero skoraði 19 stig fyrir Þrótt og Atli Fannar Pétursson kom næstur með 13 stig. Piotr Kempisty skoraði 21 stig fyrir Aftureldingu og Radoslaw Rybak bætti við 20 stigum. 

Með sigrinum heldur Afturelding forskoti sínu á Þróttara en munurinn á liðunum er nú 4 stig. Afturelding hefur unnið 2 af 8 leikjum sínum og sitja í 4. sætinu en Þróttarar hafa sigrað einn af sínum 6 leikjum og eru í 5. sætinu. Með þessum leik lýkur fyrri hluta Mizunodeildar karla og eru öll lið deildarinnar nú komin í jólafrí. Þróttarar fá Álftanes heimsókn dagana 19. og 20. janúar en Afturelding á útileik gegn HK 23. janúar.