[sam_zone id=1]

Afturelding sigraði aftur fyrir austan

Fyrr í dag fór fram seinni leikur Þróttar Nes og Aftureldingar í Mizunodeild kvenna.

Leik gærdagsins lauk með 1-3 sigri Aftureldingar sem kom nokkuð á óvart miðað við stöðu liðanna í deildinni. Fyrir helgina var Þróttur Nes með 13 stig eftir 7 leiki og Afturelding með 5 stig eftir 7 leiki. Því var sigurinn sterkur fyrir lið Aftureldingar eftir nokkuð brösuga byrjun.

Fyrsta hrina í dag var jöfn og náði hvorugt liðið að slíta sig frá hinu. Eftir fyrstu stigin hafði Afturelding þó yfirhöndina og um miðja hrinu stungu þær svo af. Fern sóknarmistök Þróttara á stuttum tíma, auk þriggja sóknarstiga Aftureldingar sáu til þess að Afturelding sigraði hrinuna örugglega, 19-25.

Þróttarar byrjuðu betur í annarri hrinunni en náðu þó aldrei afgerandi forystu. Í stöðunni 12-12 fór lið Aftureldingar hins vegar í næsta gír og byggðu upp forskot sem reyndist of stórt fyrir heimakonur. Þrátt fyrir að gera hrinuna spennandi náðu Þróttarar aldrei að jafna leikinn og Afturelding vann hrinuna 21-25.

Þriðja hrinan var vægast sagt ótrúleg að horfa á. Þróttarar réðu ríkjum á vellinum lengi framan af hrinunni og komust vel yfir, 19-10. Þá hrökk allt í baklás og Afturelding átti frábæran kafla. Karítas Ýr skoraði 3 ása úr uppgjöf til að byrja endurkomuna en þrátt fyrir góðar skorpur voru Þróttarar í frábærri stöðu, 23-18 yfir.

Varnarleikur Aftureldingar var góður og fór ekkert í gólfið hjá gestunum. Þetta nýttu þær sér vel og sáu Þróttarar um að gera mistökin. Aftureldingarstelpur voru svo sterkari undir lokin en þær skoruðu síðustu 7 stig leiksins og unnu hrinuna því 23-25. Þar með sigraði Afturelding leikinn 0-3 og tekur með sér 6 dýrmæt stig frá sterkum heimavelli í Neskaupstað.

Laura Gázquez Ortega skoraði 10 stig fyrir Þrótt Nes en Velina Apostolova skoraði 15 stig fyrir Aftureldingu. Velina skoraði þar með 39 stig í leikjunum tveimur og átti stóran þátt í sterkum sigrum Aftureldingar. Þróttur Nes er nú í 4. sæti deildarinnar með 13 stig eftir 9 leiki en Afturelding er í 5. sætinu með 11 stig eftir 9 leiki. Liðin eru komin í jólafrí og tekur nú við landsleikjahlé vegna leikja Íslands í undankeppni EM.