[sam_zone id=1]

Þróttarar unnu Álftanes í Laugardalnum

Þróttur Reykjavík tók á móti Álftanesi í Mizunodeild kvenna í gærkvöldi í Laugardalshöll. Fyrir leikinn var lið Álftaness á botni deildarinnar með 1 stig og Þróttur í næst neðsta sæti með 3 stig.

Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað, en í stöðunni 14-14 kom góður kafli hjá Álftanesi sem tók næstu 7 stig og staðan því orðin 21-14. Munurinn var of mikill fyrir Þróttara og Álftanes vann fyrstu hrinu 25-16. Álftanes byrjaði aðra hrinu betur og komst í 6-2. Þá var komið að Þrótturum að eiga góðan kafla en næstu 9 stig urðu þeirra. Þróttarar héldu góðri forystu út hrinuna og þó að Álftanes hafi aðeins náð að klóra í bakkann undir lokinn, dugði það ekki til og Þróttarar kláruðu hrinuna 25-19.

Álftanes byrjaði þriðju hrinu einnig betur og náði ágætis forskoti. Í stöðunni 13-7 tóku Þróttarar leikhlé sem skilaði sínu því þær jöfnuðu 13-13. Restin af hrinunni var nokkuð jöfn sem endaði með sigri heimakvenna 25-22. Álftanes byrjaði enn og aftur betur í fjórðu hrinu og leiddi hrinuna þangað til Þróttarar jöfnuðu 11-11. Heimakonur enduðu hrinuna af krafti og kláruðu hana 25-17 og þar með leikinn 3-1.

Því miður vantar þó nokkuð upp á tölfræðina í leiknum, en hún verður aðgengileg á síðu Blaksambandsins innan tíðar.