[sam_zone id=1]

HK hafði betur í Mosfellsbæ

Tveir leikir fóru fram í Varmá í Mosfellsbæ í kvöld þegar Afturelding tók á móti HK í Mizunodeild karla og kvenna.

Fyrri leikur kvöldsins var viðureign Aftureldingar og HK í Mizunodeild kvenna en þar hafði HK betur 3-1 (25-18, 18-25, 25-15, 25-18).

Leikurinn byrjaði nokkuð jafn en liðin skiptu með sér fyrstu tveimur hrinunum. Leikur liðanna var mjög kaflaskiptur og skiptust liðin á því að taka langar skorpur. Öflugar uppgjafir Birtu Rósar Þrastardóttur settu HK í vandræði en Elísabet Einarsdóttir náði einnig að setja Aftureldingu í vandræði með sínum uppgjöfum. Heilt yfir var sóknarleikur HK sterkari og þá var töluverður munur á hávörnum liðanna. HK skoraði alls 11 stig úr hávörn og var Hanna María Friðriksdóttir þar atkvæðamest með 6 stykki. Afturelding var einungis með 2 stig úr hávörn og fyrir vikið gekk þeim erfiðlega að stöðva sóknarleik HK.

Stigahæst í leiknum var Elísabet Einarsdóttir leikmaður HK með 18 stig. Stigahæst í liði Aftureldingar var Velina Apostolova með 12 stig.

Með sigrinum tillir HK sér á topp Mizunodeildar kvenna með 21 stig, tveimur stigum meira en KA. Afturelding dettur niður í 6. sæti með 5 stig.


Seinni leikur dagsins í Varmá var viðureign sömu liða í Mizunodeild karla en þar hafði HK einnig betur 3-1 (25-18, 18-25, 25-23, 25-17).

HK átti harma að hefna í kvöld eftir að hafa tapað gegn Aftureldingu í leik liðanna í Október. Eftir nokkuð jafna byrjun þá náði HK að ýta heimamönnum frá sér og ná smá forskoti, HK fór með sigur í fyrstu hrinu en þar var Benedikt Baldur Tryggvason hvað atkvæðamestur. Benedikt fór hinsvegar meiddur af velli undir lok fyrstu hrinu og við það misstu HK dampinn. Afturelding nýtti sér það og náði sigri í annari hrinu en þar voru það þeir Piotr Kempisty og samlandi hans Radoslaw Rybak hvað mest áberandi. Hægt og rólega náðu HK að snúa leiknum sér í hag en þrátt fyrir jafna þriðju hrinu sem endaði með sigri HK 25-23, þá varð fjórða hrina eign HK út í gegn en hana sigraði HK 25-17.

Stigahæstur í leiknum var Radoslaw Rybak leikmaður Aftureldingar með 20 stig en stigahæstur í liði HK var Theódór Óskar Þorvaldsson með 19 stig.

HK er eftir sigurinn með 8 stig í þriðja sæti Mizunodeildar karla á meðan Afturelding situr í fjórða sæti með 4 stig.

Líkt og áður hafði komið fram þá ákvað Afturelding að láta allan aðgangseyrir úr leikjunum renna í minningarsjóð Einars Darra sem varð bráðkvaddur aðeins 18 ára gamall. Allir leikmenn liðanna borguðu sig inná leikina og þá var einnig ágætur fjöldi áhorfenda sem mætti á leikina.

Sjá einnig: Allur aðgangseyrir úr viðureignum Aftureldingar og HK rennur í málefnið #egabaraeittlif