[sam_zone id=1]

Völsungur sigraði Þrótt Nes öðru sinni

Þróttur Nes heimsótti Völsung öðru sinni í dag en leik liðanna í gær lauk með 3-0 sigri Völsungs.

Þróttarar höfðu verið á miklu flugi í deildinni fram að þessari helgi en lið Völsungs er þó hættulegt. Þær sigruðu leik gærdagsins örugglega, 3-0, og gengi liðsins var einnig gott í dag. Þróttarar byrjuðu vel í fyrstu hrinu og höfðu forystuna en Völsungur sótti fljótt í sig veðrið og var komið yfir um miðja hrinuna. Munurinn jókst svo jafnt og þétt og lauk hrinunni með sannfærandi sigri Völsungs, 25-19. Þróttarar byrjuðu aftur vel í annarri hrinu en Völsungur jafnaði fljótt. Hrinan var svo mjög spennandi fram að lokum en aftur sigu Völsungar fram úr og tryggðu sér 25-21 sigur.

Í þriðju hrinu var það svo Völsungur sem byrjaði mun betur. Þær komust í 4-0 og var munurinn mestur í stöðunni 12-4. Þá hófst endurkoma Þróttar og náði liðið að minnka muninn í eitt stig í stöðunni 17-16. Þá virtist allt hrökkva í baklás og Völsungur skoraði næstu 7 stig. Eftirleikurinn var auðveldur og sigraði Völsungur hrinuna 25-17 og leikinn þar með 3-0.

Rut Gomez var stigahæst í liði Völsungs með 14 stig en Tinna Rut Þórarinsdóttir og Særún Birta Eiríksdóttir skoruðu 8 stig hvor fyrir Þrótt Nes. Eftir helgina er Völsungur með 16 stig eftir 9 leiki en lið Þróttar Nes er með 13 stig eftir 7 leiki. Baráttan á toppi deildarinnar er því orðin mjög þétt en KA er efst með 19 stig eftir 7 leiki. Lið HK og KA eigast nú við í Fagralundi og mun staðan því breytast eitthvað í lok dags.

Þróttur Nes fær Aftureldingu í heimsókn dagana 15.-16. desember og leika tvo leiki gegn þeim. Lið Völsungs er hins vegar komið í jólafrí og á næst leik 16. janúar gegn KA.