[sam_zone id=1]

Trentino heimsmeistarar félagsliða

Ítölsku liðin Lube og Trentino mættust í úrslitaleik HM félagsliða í kvöld.

Þessi geysisterku lið hafa spilað frábærlega hingað til í keppninni og voru verðskuldað komin alla leið í úrslitaleikinn. Bæði lið höfðu sigrað alla fjóra leiki sína í mótinu og stefndu á gullið í leik kvöldsins. Lið Trentino byrjaði betur og sigraði fyrstu hrinu nokkuð þægilega, 20-25, en leikurinn bauð þó upp á frábær gæði og lítið skildi á milli liðanna. Hnífjafnt var í annarri hrinu en það var lið Lube sem seig fram úr undir lokin og tryggði sér 25-22 sigur í hrinunni.

Enn héldu hrinurnar áfram að vera jafnar og spennandi en í þriðju hrinu náði Trentino forystunni um miðja hrinuna, 14-16. Þá skoruðu Lube 3 stig í röð og breyttu stöðunni í 17-16, sér í vil. Trentino skoraði 3 stig í röð og kom sér í góða stöðu, 18-21 yfir. Þetta bil náði Lube ekki að brúa og Trentino sigraði hrinuna 20-25. Eftir fyrstu þrjár hrinurnar hafði Tsvetan Sokolov verið aðalvopn Lube í sókn og skorað 14 stig þar en Trentino dreifði spili sínu mun betur. Í liði Trentino höfðu 3 leikmenn skorað yfir 10 stig, þar af var Aaron Russell stigahæstur með 13 stig.

Þjálfari Lube ákvað að breyta liði sínu í fjórðu hrinunni og tók uppspilara sinn, Bruno, af velli. Í hans stað kom Stijn D’hulst og freistaði þess að setja mark sitt á leikinn. Sem fyrr var mikið jafnræði með liðunum en Trentino leiddi 7-8 í fyrsta tæknileikhléi. D’hulst spilaði ágætlega upp en er mjög lágvaxinn. Það nýttu kantsmassarar Trentino sér vel þegar hann var í framlínu en þegar hann lék í afturlínunni sótti Lube á. Trentino leiddi enn með einu stigi í seinna tæknileikhléi, 15-16, og var útlit fyrir æsispennandi lokastig.

Lube skipti aftur um uppspilara stuttu eftir tæknileikhléið en sókn Trentino fór mikið í gegnum svæðið sem D’hulst átti að verja í hávörninni. Því miður fyrir þá var Uros Kovacevic í stuði hinum megin við netið og skoraði hann tvo ása í röð og kom Trentino 15-19 yfir. Í stöðunni 17-21 lokaði Aaron Russell svo hávörninni hjá Trentino og skoraði tvö frábær hávarnarstig. Lube náðu þeim ekki úr þessu og Aaron Russell skoraði svo sjálfur úrslitastigið með smassi. Trentino sigraði hrinuna 18-25 og leikinn þar með 1-3.

Tsvetan Sokolov skoraði 17 stig fyrir Lube en Aaron Russell skoraði 19 stig fyrir Trentino. Trentino eru því heimsmeistarar félagsliða 2018 en þeir hafa fjórum sinnum unnið titilinn áður, síðast árið 2012.