[sam_zone id=1]

Þrennir sigrar hjá íslendingunum í Danmörku í dag

Unnur Árnadóttir, Ævarr Freyr Birgisson og Valþór Ingi Karlsson áttu öll leiki í dönsku úrvaldeildinni í dag.

Elite Volley Aarhus – VK Vestsjælland

Unnur reið á vaðið með liðsfélögum sínum í Elite Volley Aarhus (EVA) þegar þær tóku á móti VK Vestsjælland. Það var ekki búist við mikilli mótspyrnu frá gestunum frá Vestsjælland þar sem þær reka lestina í deildinni með 0 stig.

Fyrstu tvær hrinur leiksins voru eins og búast mátti við ekki mjög spennandi þar sem EVA völtuðu yfir gestina og unnu 25-15 og 25-11. Töluverðar breytingar voru gerðar milli hrina og flestum leikmönnum leyft að spreyta sig en í þriðju hrinunni bitu Vestsjælland örlítið frá sér. Hrinunni lauk þó með 25-23 sigri EVA og leiknum þar með 3-0.

Unnur leikur stöðu miðju hjá EVA og spilaði alla þriðju hrinuna í dag og skoraði í henni 3 stig, 2 úr uppgjöf og 1 úr sókn.

EVA er nú í fjórða sæti deildarinnar með 11 stig eftir 6 leiki. Næsti leikur þeirra er næstkomandi laugardag þar sem þær heimsækja Fortuna Odense Volley.

Boldklubben Marienlyst – Aalborg Volleyball

Líkt og í leik Unnar var ekki búist við mikilli spennu í þessum leik þar sem Aalborg rekur lestina hjá körlunum með 0 stig á meðan Marienlyst var í öðru sætinu.

Leikurinn náði aldrei miklu flugi og var sigur Marienlyst aldrei í hættu. Hrinunum lauk 25-18, 25-16 og 25-19 og var getumunurinn á liðunum mjög augljós þar sem Marienlyst tókst að leyfa öllum sínum leikmönnum að spila.

Ævarr leikur stöðu frelsingja hjá Marienlyst. Því miður er tölfræði leiksins ekki áreiðanleg en Ævarr átti góðan leik í dag.

Marienlyst er þar með aftur komið á topp deildarinnar með 23 stig eftir 9 leiki og er næsti leikur þeirra gegn Valþóri Inga Karlssyni og félögum í ASV Aarhus næstkomandi laugardag.

ASV Aarhus – VK Vestsjælland

Síðasti íslendingaleikurinn í dag var leikur ASV Aarhus, liðs Valþórs Inga Karlssonar, gegn VK Vestsjælland. Það mátti búast við hörkuleik þar sem Aarhus og Vestsjælland voru jöfn að stigum fyrir leikinn.

Aarhus voru hins vegar mikið sterkari aðilinn í dag þar sem þeir unnu 3-0. Hrinunum lauk 25-21, 25-14 og 25-19.

Valþór Ingi leikur stöðu frelsingja hjá Aarhus og tók hann 17 sinnum á móti boltanum í dag. Hann var með 47% jákvæða móttöku og 18% fullkomna.

Eftir leikinn er Aarhus með 19 stig eftir 9 leiki og sitja í þriðja sæti deildarinnar. Næsti leikur þeirra er gegn Ævarri Frey og félögum í Marienlyst næstkomandi laugardag.