[sam_zone id=1]

KA menn hefna gærdagsins með sigri

HK tók á móti KA í Fagralundi í dag í Mizunodeild karla. Liðin mættust einnig í gær í hörku viðureign sem endaði með 3-2 sigri HK.

HK menn komu einbeittir til leiks í fyrstu hrinu og voru skrefinu framar í byrjun hrinunnar þó að KA menn hafi aldrei hleypt þeim of langt í burtu. HK menn settu í næsta gír eftir miðja hrinu og kláruðu hrinuna þægilega 25-16.

KA menn leiddu megnið af annari hrinu þó svo að munurinn hafi aldrei verið meiri en fjögur stig. Það var í stöðunni 20-16, en þá kom góður kafli hjá HK mönnum sem náðu að jafna 20-20 með sterkum sóknarleik. Síðustu stig hrinunnar voru gríðarlega spennandi og endaði hrinan með sigri KA, 26-24. KA sýndi mikla yfirburði í þriðju hrinu, náðu fljótt góðu forksoti og héldu því út hrinuna sem þeir kláruðu 25-15.

Gestirnir gáfu ekkert eftir í fjórðu hrinu og byrjuðu hana af krafti og komust í 5-1. Þá tóku HK menn leikhlé sem skilaði ekki miklu því KA menn héldu áfram að auka forskotið og virtist lítið ganga upp hjá HK mönnum. Í stöðunni 10-1 fyrir KA tók HK sitt síðara leikhlé. HK menn áttu fá svör við öflugum uppgjöfum frá Stefano Nassini Hidalgo og juku KA menn enn við forskotið. Takmörkuð spenna var í hrinunni þó að HK menn hafi átt ágæta kafla inn á milli, en KA kláraði hrinuna 25-13 og þar með leikinn 3-1.

Stigahæstir í liði KA voru Miguel Mateo Castrillo með 20 stig og Alexander Arnar Þórisson með 14. Theódór Óskar Þorvaldsson var stigahæstur HK manna með 17 stig og Andreas Hilmir Halldórsson var með 14.