[sam_zone id=1]

Hristiyan MVP í sterkum sigri Haching

Hristiyan Dimitrov og félagar í AlpenVolleys Haching II unnu í dag góðan sigur gegn FT 1844 Freiburg í baráttunni um fjórða sætið í þýsku annarri deildinni suður í dag.

Haching hófu leikinn af miklum krafti og gáfu Freiburg engan möguleika í fyrstu hrinunni. Hrinunni lauk með 25-16 sigri Haching.

Önnur hrinan var töluvert meira spennandi þar sem munurinn var ekki mikill. Haching voru þó sterkari aðilinn í lok hrinunnar og unnu hana með minnsta mun, 25-23.

Þriðja hrinan var ekki mjög spennandi þar sem Haching unnu hana nokkuð örugglega, 25-20 og leikinn þar með 3-0.

Í Þýskalandi er hefð fyrir því að velja mikilvægasta leikmann hvors liðs fyrir sig og veita þeim verðlaun, öðrum gull og hinum silfur. Hristiyan hefur sankað að sér verðlaunum síðan hann hóf að spila með Haching og virðist hann ekki ætla að hætta því þar sem hann fékk gullverðlaunin í dag.

Eftir leikinn er Haching í fjórða sæti deildarinnar með 19 stig eftir 10 leiki. Næsti leikur þeirra er næstkomandi laugardag gegn Blue Volleys Gotha, en þeir eru í næstsíðasta sæti deildarinnar og því góður möguleiki fyrir Haching að sækja 3 stig gegn þeim.