[sam_zone id=1]

HK sigraði KA í spennuleik

HK tók á móti KA í Mizunodeild kvenna í dag. Þetta var annar leikur liðanna þessa helgi.

KA sigraði leik gærdagsins 3-1 og var þar með eitt á toppi deildarinnar. HK var svo í þriðja sætinu en átti þó 3 leiki til góða á Völsung, sem var í öðru sætinu. Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi fyrstu hrinu og skiptust liðin á stigum. Hrinan var æsispennandi og margar langar og skemmtilegar skorpur juku enn á spennuna. HK komst mest 22-19 yfir í lok hrinunnar en KA jafnaði fljótt, 22-22. HK náði þó í 25-22 sigur í hrinunni með góðri uppgjafapressu frá Líneyju Ingu Guðmundsdóttur.

KA spilaði vel í annarri hrinu og leiddi fljótt 5-1. Munurinn varð sífellt meiri og lið HK virtist ekki eiga nein svör. Um miðja hrinuna náði HK hins vegar ágætu skriði en KA var of sterkt. Þær héldu góðri pressu á heimakonum og sigruðu hrinuna að lokum 17-25. KA sýndi töluvert meiri stöðugleika og sigraði nokkkuð örugglega.

HK byrjaði þriðju hrinu mjög vel og Miguel Mateo, þjálfari KA, tók leikhlé í stöðunni 8-4. Það breytti ekki miklu í leik liðsins og nýtti KA sitt seinna leikhlé í stöðunni 14-5. Uppgjafir HK gerðu KA erfitt fyrir og sóknarleikur liðsins var ekki beittur. Eftir seinna leikhléið náði KA 5-1 kafla og breytti stöðunni í 15-10. Næstu stig einkenndust af mikilli spennu og æsingi. Mateo, þjálfari KA, fékk að líta gult spjald eftir mótmæli og eftir það fór HK almennilega í gang aftur. Þær sigruðu hrinuna 25-16 og voru þar með komnar 2-1 yfir.

Liðin voru hnífjöfn í byrjun fjórðu hrinu og var staðan jöfn 9-9. Þá skoruðu KA 3 stig í röð og neyddu Emil Gunnarsson, þjálfara HK, til að taka leikhlé. Bæði lið áttu í vandræðum með móttökuna enda uppgjafir beggja liða sterkar. Því var mikið um sveiflur og var fjórða hrinan engin undantekning þar á. Aðallega átti það þó við um fyrri helming hrinunnar. Seinni hluti hennar var frábær skemmtun og mikið um langar og spennandi skorpur. HK lokaði vel á sóknir KA í lok hrinunnar og KA spiluðu mjög einfaldan leik undir lokin. HK vann hrinuna 25-21 eftir mikla spennu og sigraði leikinn þar með 3-1.

Elísabet Einarsdóttir skoraði 23 stig fyrir HK en Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 14 stig fyrir KA. HK leikur næst gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ og fer sá leikur fram 5. desember næstkomandi. KA er komið í jólafrí og á ekki leik fyrr en 16. janúar gegn Völsungi.