[sam_zone id=1]

Calais aftur á sigurbraut

Calais mætti í dag liði Tourcoing í frönsku N2 deildinni í blaki, en Calais tapaði um síðustu helgi sínum fyrsta leik í vetur og voru þeir staðráðnir í að bæta upp fyrir það í dag.

Leikurinn var jafn til að byrja með og skiptust liðin á því að skora stig. Þegar leið á hrinuna fór þó Calais að finna glufur í leik Tourcoing og þeir nýttu sér það með góðum uppgjöfum og góðri sókn. Calais þjarmaði jafnt og þétt að gestunum og unnu fyrstu hrinuna að lokum 25-14.

Næstu tvær hrinur voru keimlíkar þeirri fyrstu, jafnræði var með liðunum í byrjun en Calais var þó alltaf með yfirhöndina í leiknum í dag. Það fór því þannig að lokum að Calais sigraði næstu tvær hrinur leiksins 25-16 og 25-15 og unnu þar með leikinn 3-0.
Sigurinn í dag var aldrei í hættu hjá heimaliðinu og spiluðu þeir mjög vel í dag bæði í sókn og vörn eftir slakan leik um síðustu helgi.

Hafsteinn var í byrjunarliði Calais í dag og lék hann allan leikinn á miðjunni, hann átti mjög góðan leik í dag og skoraði mikið af stigum hvort sem það var í sókn eða hávörn.

Calais eru eftir leikinn enn í öðru sæti deildarinnar og eru þeir stigi á eftir toppliði Metz.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.