[sam_zone id=1]

HK vann KA í hörkuleik

HK tók á móti KA í Mizunodeild karla í Fagralundi í dag. Fyrir leikinn voru KA efstir í deildinni með 17 stig eftir 6 spilaða leiki en HK í 4. sæti, hafandi aðeins spilað tvo leiki.

KA menn byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 4-0 með sterkum sóknum og uppgjöfum. Gestirnir juku forskotið jafnt og þétt gegn takmarkaðri mótspyrnu heimamanna. KA menn unnu hrinuna 25-16. Í annari hrinu mætti allt annað HK lið til leiks en í fyrstu. Liðin skiptust á að halda forskotinu, en þegar KA menn voru komnir yfir 14-11, kom gríðar sterkur kafli hjá HK mönnum, sem fengu 6 stig í röð og komust yfir 17-14. KA menn játuðu sig alls ekki sigraða í hrinunni og jöfnuðu 18-18. Lokamínútur hrinunnar voru gríðar spennnandi og endaði hrinan með 26-24 sigri HK.

KA menn byrjuðu þriðju hrinu ögn betur og voru yfir í upphafi þangað til að HK menn jöfnuðu 7-7. Eftir það var mikið jafnræði með liðunum. KA menn áttu aðeins meira inni í lok hrinunnar og unnu 25-21 og þar með komnir 2-1 yfir í hrinum. Með bakið upp við fræga vegginn byrjuðu heimamenn fjórðu hrinu af miklum krafti og komust yfir 9-3, þegar KA menn tóku leikhlé. Það dugði ekki til og hafði HK yfirburði alla hrinuna og gerðu einungis 2 mistök á móti 11 mistökum gestanna. Það skilaði þeim með sigri í hrinunni 25-19 og liðin því á leið í oddahrinu.

Jafnt var á hartnær öllum tölum í byrjun oddahrinunnar og var staðan 8-7 fyrir KA þegar skipt var um vallarhelming. KA komst í 10-8 og HK menn tóku leikhlé. HK menn jöfnuðu 11-11 og komust svo yfir og kláruðu hrinuna 15-13 og þar með leikinn 3-2.

Stigahæstir í liði HK voru Andreas Hilmir Halldórsson með 17 stig og Theódór Óskar Þorvaldsson og Benedikt Baldur Tryggvason með 14 stig hvor. Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur KA manna með 24 stig og Alexander Arnar Þórisson var með 17 stig. Liðin mætast aftur á morgun í Fagralundi klukkan 13.