[sam_zone id=1]

Öruggur sigur Nitra

Thelma Dögg Grétarsdóttir og félagar hennar í Nitra sigruðu Trnava örugglega í slóvakísku úrvalsdeildinni í gær.

Þetta var í annað skiptið á tímabilinu sem liðin mætast og sigraði Nitra fyrri leik liðanna 3-0. Nú var leikið á heimavelli Trnava en það kom ekki að sök því að Nitra sigraði aftur 3-0. Spennan var ekki mikil og í raun valtaði Nitra yfir heimakonur. Nitra leyfði sér að gera breytingar á liði sínu og dreifðist stigaskorið mjög jafnt milli leikmanna liðsins. Thelma skoraði 8 stig í leiknum, þar af 3 beint úr uppgjöf.

Í fyrstu hrinu hafði Nitra forystuna alveg frá byrjun og leiddu mestan hluta hrinunnar með 6-8 stigum. Thelma Dögg kláraði svo hrinuna með tveimur ásum og Nitra vann hrinuna 15-25. Eftir skárri byrjun Trnava í annarri hrinu fór Nitra almennilega í gang og þá áttu heimakonur ekki möguleika. Nitra sigraði hrinuna 9-25. Í þriðju hrinu var það sama uppi á teningnum og valtaði Nitra yfir lið Trnava. Thelma Dögg var hvíld stóran hluta hrinunnar og Nitra tryggði sigurinn með því að vinna hrinuna 11-25.

Eftir þennan sigur er Nitra í 3. sæti deildarinnar með 17 stig en lið Bilikova á þó leik til góða og er með 16 stig. Það verður því mikil barátta um 3.-4. sætið í síðustu deildarleikjum liðanna. Deildarkeppninni lýkur um áramótin og í janúar hefst úrslitakeppni. Þann 9. desember næstkomandi mætir Nitra toppliði Slavia Bratislava á heimavelli.