[sam_zone id=1]

Evrópa einokar undanúrslitin

Tveir leikir fóru fram á HM félagsliða í gær. Leikið var í B-riðli og gátu heimamenn í Resovia tryggt sér sæti í undanúrslitum.

Resovia sigraði Sada Cruzeiro í oddahrinu í fyrsta leik sínum og í gær mætti liðið svo Khatam Ardakan. Resovia sigraði leikinn örugglega og vegna hagstæðra úrslita í hinum leik riðilsins er liðið komið í undanúrslit. Í hinum leiknum voru það Trentino og Sada Cruzeiro sem mættust og sigraði Trentino 3-1 í hörkuleik. Sada Cruzeiro hefur því tapað báðum leikjum sínum og getur ekki náð Resovia og Trentino. Undanúrslitin verða þar með barátta fjögurra evrópskra liða, þar af eru tvö frá Ítalíu.

Úrslit gærdagsins

Sada Cruzeiro 1-3 Trentino Volley (25-17, 26-28, 23-25, 25-27). Evandro Guerra skoraði 25 stig fyrir Sada Cruzeiro en Aaron Russell skoraði 24 stig fyrir Trentino.

Khatam Ardakan 0-3 Asseco Resovia (21-25, 21-25, 11-25). Ghasem Kharkhane skoraði 9 stig fyrir Khatam en Thibault Rossard skoraði 19 stig fyrir Resovia.

Í dag fara fjórir leikir fram og lýkur þar með riðlakeppninni. Nú þegar er orðið ljóst hvaða lið fara í undanúrslitin en uppröðun liðanna getur þó enn breyst. Það verður því ekki ljóst fyrr en eftir síðustu leiki hvaða lið mætast í undanúrslitunum, sem fara fram á laugardag.

Leikir dagsins

A-riðill

16:30 Fakel Novy Urengoy – Cucine Lube Civitanova

19:30 Skra Belchatów – Zenit Kazan

B-riðill

16:30 Asseco Resovia – Trentino Volley

19:30 Khatam Ardakan – Sada Cruzeiro