[sam_zone id=1]

HK seinar í gang en náðu í sigur

Þróttur Reykjavík tók í kvöld á móti HK í Mizunodeild kvenna en leikurinn fór fram í Kennaraháskóla Ísland.

HK var fyrir leikinn taplaust í 3. sætinu en gat með sigri náð toppi deildarinnar. Þróttur Reykjavík var í 5. sætinu, þó nokkuð á eftir liðunum í efri hluta deildarinnar. HK byrjaði leikinn betur en Þróttur náði fljótlega að jafna leikinn. Mikið var um mistök í byrjun hrinunnar og náði hvorugt liðið miklu skriði. Um miðja hrinu skellti HK hins vegar í lás og var staðan skyndilega orðin 14-21. Spilið batnaði þá aðeins hjá Þrótti en HK vann hrinuna þó 19-25.

Önnur hrina fór rólega af stað en HK náðu tökum á leiknum eftir fyrstu stigin. Þær voru komnar í góða stöðu, 9-15 yfir, en þá lifnuðu Þróttarar aftur við. Þróttur náði að jafna í stöðunni 17-17 og komst yfir, 18-17. Þær virtust svo vera með hrinuna í höndum sér, 23-19 yfir, en lið HK var þó ekki hætt. Síðustu stigin voru spennandi en mistök voru ráðandi eins og í fyrstu hrinunni. Þróttarar skoruðu svo tvo ása úr uppgjöf í lokin og unnu hrinuna 27-25.

Þróttarar náðu ekki að halda í við HK lengur og var þriðja hrina algjörlega eign HK. Munurinn fór í tveggja stafa tölu og lauk hrinunni með 25-11 sigri HK-inga. Fjórða hrina var svo framhald af þeirri þriðju og komst HK í 0-11 til að byrja hrinuna. Bæði lið gerðu miklar breytingar á liðum sínum í hrinunni en að lokum sigraði HK hana örugglega,

Eldey Hrafnsdóttir skoraði 8 stig fyrir Þrótt Reykjavík en Elísabet Einarsdóttir var stigahæst hjá HK með 22 stig. HK er nú á toppi deildarinnar með 15 stig eftir 5 leiki eða fullt hús. Þær mæta hins vegar öðru toppliði um helgina en þá eigast HK og KA við í Fagralundi. Þróttur er með 3 stig eftir 5 leiki. Þróttur mætir Álftanesi 5. desember næstkomandi og fer sá leikur fram á heimavelli Þróttar.