[sam_zone id=1]

KA sigraði Þróttara aftur

KA og Þróttur Nes mættust öðru sinni þessa helgina í Mizunodeild karla í dag.

KA sigraði leik gærdagsins sannfærandi en lokatölur voru 3-1. Þróttarar sýndu góðan leik í sigurhrinu sinni í gær og ættu því að geta strítt KA-mönnum, þó að KA hafi verið mun sigurstranglegra fyrirfram. Þróttarar komu sterkir inn í fyrstu hrinu og leiddu 7-10. Þá skoraði KA 5 stig í röð og komst yfir í fyrsta skipti, 12-10. Eftir þetta var allt í járnum en KA komst 24-23 yfir undir lok hrinunnar. Þá skoruðu Þróttarar síðustu 3 stigin og unnu hrinuna 24-26.

KA-menn komu sterkir inn í aðra hrinuna og leiddu 8-3. Sterkar uppgjafir Borja Gonzalez komu Þrótturum hins vegar aftur inn í hrinuna og minnkuðu þeir muninn strax í 8-7. Í stöðunni 15-12 fór Stefano Nassini Hidalgo í uppgjöf fyrir KA og fór munurinn í 21-12 þegar KA skoraði sitt sjöunda stig í röð. KA gaf ekkert eftir undir lok hrinunnar og sigraði hana 25-13. Í þriðju hrinu virtust Þróttarar ekki eiga mikinn séns í KA. Þróttarar tóku sitt seinna leikhlé í stöðunni 9-2 en það dugði ekki til. Þrátt fyrir smá mótspyrnu Þróttara í lok hrinu sigraði KA 25-19 og leiddi leikinn 2-1.

Snemma í fjórðu hrinu þurfti að stöðva leikinn vegna vandamála á ritaraborðinu og tafðist leikurinn töluvert mikið. Þegar leikurinn hófst á ný komust Þróttarar 6-10 yfir með góðum kafla áður en KA náði að svara fyrir sig. Þeir söxuðu á forystuna og jöfnuðu 13-13. Þróttur leiddi 21-23 seint í hrinunni en KA jafnaði 23-23 og Þróttarar tóku leikhlé. Alexander Arnar tryggði KA svo 25-23 sigur með tveimur frábærum uppgjöfum í lok leiksins.

Tölfræði er ekki tiltæk frá leiknum en samkvæmt upplýsingum frá KA TV var Miguel Mateo Castrillo stigahæstur í liði KA með 21 stig en Miguel Angel Ramos Melero skoraði 17 stig fyrir Þrótt Nes. KA er nú með 17 stig eftir 6 leiki og er langefst í deildinni. Þróttarar eru enn stigalausir eftir fyrstu 4 leiki sína. Næstu helgi mætir KA liði HK tvívegis í Kópavogi en Þróttarar eiga ekki leik fyrr en helgina 15.-16. desember þegar liðið mætir Afturelding í tveimur leikjum. Þeir leikir fara fram í Neskaupstað.