[sam_zone id=1]

Aarhus síðasta liðið í undanúrslit bikarsins eftir ótrúlegan leik

Valþór Ingi Karlsson og félagar í ASV Aarhus heimsóttu Middelfart í dag þar sem þeir freistuðu þess að tryggja sér síðasta lausa plássið í undanúrslitum danska bikarsins.

Liðin höfðu mæst einu sinni áður í deildinni í vetur og hafði Aarhus þá betur, 3-0. Þrátt fyrir það mátti búast við spennandi leik þar sem Middelfart hefur í gegnum tíðina verið ofarlega í flestum keppnum.

Leikurinn hófst hins vegar ekki á neinni flugeldasýningu þar sem gestgjafarnir hreinlega völtuðu yfir Aarhus í fyrstu hrinunni. Í stöðunni 5-5 skoruðu Middelfart 9 stig í röð og varð staðan þar með 5-14. Þeir juku muninn eftir því sem leið á hrinuna og lauk henni með 11-25 sigri Middelfart.

Önnur hrinan var töluvert jafnari en voru Middelfart þó alltaf skrefi á undan. Aarhus minnkuðu muninn hægt og rólega og jöfnuðu í stöðunni 23-23. Gestgjafarnir voru hins vegar sterkari undir lokin og unnu hrinuna 23-25. Þar með var bikardraumur Aarhus byrjaður að fjara út og þurftu þeir á sínum besta leik að halda til að eiga einhvern möguleika á að komast áfram.

Þriðja hrinan var jöfn og spennandi þar til um hana miðja. Þá komust Aarhus nokkrum stigum á undan og unnu hrinuna 25-21.

Aarhus virtust alveg staðráðnir í að þeir væru á leiðinni í undanúrslitin í fjórðu hrinunni þar sem þeir gáfu Middelfart aldrei möguleika. Í síðari hluta hrinunnar virtust Middelfart vera farnir að vera frekar áhyggjufullir og pirraðir og þá sérstaklega þjálfari liðsins sem fékk að líta rauða spjaldið fyrir mótmæli. Hrinunni lauk með 25-17 sigri Aarhus og draumurinn lifði aftur.

Oddahrinan var frekar jöfn til að byrja með en Aarhus leiddu þó í stöðunni 8-7. Þá skoruðu þeir 5 af næstu 6 stigum og því komnir í sterka stöðu. Oddahrinunni lauk með 15-12 sigri Aarhus, leiknum því 3-2 og þeir á leiðinni í undanúrslit danska bikarsins.

Valþór Ingi leikur stöðu frelsingja hjá Aarhus og átti fínan leik í dag. Hann var með 30 móttökur, þar af 63% jákvæðar og 47% fullkomnar.

Valþór er þar með þriðji fulltrúi okkar íslendinga sem tryggir sæti sitt í undanúrslitum danska bikarsins en auk hans munu Unnur Árnadóttir (Elite Volley Aarhus) og Ævarr Freyr Birgisson (Boldklubben Marienlyst) leika þar.