[sam_zone id=1]

Marienlyst komnir á topp dönsku úrvalsdeildarinnar

Ævarr Freyr Birgisson og félagar í Boldklubben Marienlyst heimsóttu í dag Amager VK í dönsku úrvalsdeildinni.

Það var ekki búist við mikilli baráttu í dag þar sem Marienlyst var í öðru sæti deildarinnar fyrir leikinn á meðan Amager var í tíunda og næstsíðasta sætinu.

Heimamenn í Amager hófu leikinn hins vegar töluvert betur en gestirnir frá Marienlyst höfðu búist við og skoruðu fyrstu fjögur stig leiksins. Marienlyst áttu erfitt með að finna taktinn framan af hrinunni og náðu ekki að brúa bilið fyrr en í stöðunni 18-18. Þeir voru svo sterkari aðilinn það sem eftir lifði hrinu og unnu hana 25-20.

Marienlyst hófu aðra hrinuna mun betur en þá fyrstu og leiddu 17-10 þegar munurinn var mestur. Þá lentu þeir í örlitlum vandræðum þar sem sóknarleikurinn stríddi þeim og Amager skoruðu 6 stig í röð. Marienlyst var hins vegar aftur sterkari aðilinn í lok hrinunnar og vann hana einnig 25-20.

Það var aldrei spurning hver myndi vinna þriðju hrinuna þar sem Marienlyst hreinlega völtuðu yfir Amager. Munurinn varð mestur 14 stig, í stöðunni 23-9. Amager tókst að minnka muninn örlítið en það var um seinan og vann Marienlyst hrinuna 25-13 og leikinn þar með 3-0.

Ævarr Freyr var í byrjunarliði Marienlyst í dag sem frelsingi þar sem aðalfrelsingi liðsins er meiddur.

Marienlyst hefur nú tyllt sér á topp deilarinnar með 20 stig eftir 8 leiki en Gentofte, meistarar síðasta árs eru í öðru sætinu með 18 stig eftir 6 leiki.