[sam_zone id=1]

BK Tromsø tapaði gegn gríðarsterku liði í Challenge Cup

Íslendingaliðið BK Tromsø mætti finnska liðinu Savo í CEV Challenge Cup í gær.

Leikurinn fór fram á heimavelli Savo í Finnlandi en liðið situr á toppi finnsku úrvalsdeildarinnar. Því var búist við erfiðum leik og það reyndist raunin. Savo sigraði leikinn sannfærandi 3-0 en hrinunum lauk 25-12, 25-15 og 25-9. Kristján Valdimarsson og Máni Matthíasson léku báðir allan leikinn fyrir Tromsø, Kristján skoraði 4 stig (3 úr hávörn) og Máni skoraði eitt stig beint úr uppgjöf. Kristoffer Østvik var stigahæstur í liði Tromsø með 13 stig.

Liðin mætast öðru sinni miðvikudaginn 14. nóvember, þá á heimavelli Tromsø. Lið Tromsø getur tryggt sér gullhrinu og von um sæti í næstu umferð nái þeir í 3-0 sigur. Þeir eiga því erfitt verkefni fyrir höndum. Til gamans má geta að Jón Ólafur Valdimarsson, annar tveggja alþjóðadómara Íslands, mun sinna starfi aðstoðardómara þess leiks. Sævar Már Guðmundsson mun einnig dæma leik í sömu umferð en hann verður aðstoðardómari í seinni leik Gentofte (Danmörk) og Saaremaa (Eistland) sem fram fer í Kaupmannahöfn.