[sam_zone id=1]

Aarhus unnu silfurverðlaunahafa síðasta tímabils

Valþór Ingi Karlsson og félagar í ASV Aarhus fengu í kvöld silfurverðlaunahafa síðasta tímabils, Middelfart, í heimsókn í dönsku úrvalsdeildinni.

Aarhus hófu leikinn af miklum krafti og voru 7-3 yfir þegar Middelfart tóku sitt fyrsta leikhlé. Forskot Aarhus jókst eftir því sem á hrinuna leið og var mest 8 stig, í stöðunni 23-15. Middelfart skoruðu þá 5 stig í röð en það var ekki nóg og vann Aarhus hrinuna 25-20.

Middelfart hófu aðra hrinuna betur og komust 1-3 yfir. Gestgjafarnir skiptu þá yfir í næsta gír og skoruðu 10 af næstu 11 stigum og opnuðu forskot sem Middelfart tókst ekki að vinna niður. Aarhus vann aðra hrinuna 25-19 og þar með komið 2-0 yfir.

Þriðja hrinan var mjög kaflaskipt þar sem liðin skiptust á að skora 3 til 5 stig í röð en þrátt fyrir það var hún einnig sú mest spennandi. Aarhus voru 24-22 yfir og virtust ætla að sigla sigrinum í höfn en gestirnir frá Middelfart voru ekki sammála því þar sem þeir jöfnuðu 24-24 og þurfti því upphækkun. Eftir að hafa lent 26-27 undir skoruðu Aarhus síðustu þrjú stig leiksins og unnu hrinuna þar með 29-27 og leikinn 3-0.

Valþór Ingi leikur stöðu frelsingja hjá Aarhus og átti hann flottan leik í dag þar sem hann var með 93% jákvæða móttöku.

Eftir leikinn er Aarhus í öðru sæti deildarinnar með 15 stig eftir 6 leiki. Þeir hafa unnið 5 leiki 3-0 og einungis tapað einum, gegn ríkjandi meisturum frá Gentofte.