[sam_zone id=1]

Nitra með enn einn sigurinn

Thelma Dögg Grétarsdóttir, leikmaður Nitra, lék í gær gegn VK Presov í slóvakísku úrvalsdeildinni.

Nitra byrjaði tímabilið nokkuð illa en hefur verið á hraðri uppleið. Eftir tvö töp í fyrstu tveimur leikjunum hefur liðið nú unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum, þar af kom einn sigurinn gegn Presov í gær. Liðið sigraði leikinn sannfærandi, 3-0, og var Thelma stigahæst í sínu liði eins og oft áður. Hún skoraði 14 stig fyrir Nitra. Fram kom í frétt nú í morgun að Thelma er orðin stigahæsti leikmaður deildarinnar sé tekið tillit til fjölda hrina sem leikmenn hafa spilað. Sýnir það hversu öflug Thelma hefur verið í þessum fyrstu leikjum.

Í fyrstu hrinu náði Nitra snemma forskoti sem liðið hélt út alla hrinuna. Mestur varð munurinn 8 stig og sigraði Nitra hrinuna 25-18. Thelma skoraði heil 9 stig í fyrstu hrinunni og réði lið Presov ekkert við hana í sókninni. Thelma lét svo lítið fyrir sér fara í næstu tveimur hrinum en það kom ekki að sök þar sem að Nitra var mun sterkari aðilinn í leiknum. Önnur og þriðja hrina voru aðeins jafnari en sú fyrsta en þrátt fyrir það seig Nitra alltaf fram úr um miðja hrinu. Hrinunum lauk 25-19 og 25-17.

Með sigrinum lyfti Nitra sér upp í 4. sæti deildarinnar og eru með 9 stig eftir 6 leiki. Næsta laugardag á Nitra útileik gegn liði Oktan Kezmarok sem er í 6. sæti deildarinnar. Liðin tvö frá Bratislava, Slávia og Strabag, sitja í efstu tveimur sætum deildarinnar og virðast líklegust til afreka þetta árið en Nitra er hins vegar á góðu skriði og gæti nálgast toppliðin með þessu áframhaldi.

(Mynd fengin af FB-síðu Nitra)