[sam_zone id=1]

Marienlyst áfram á sigurbraut

Boldklubben Marienlyst, með Ævarr Frey Birgisson innanborðs, fékk Ishøj Volley í heimsókn í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Ishøj hafði ekki átt sjö dagana sæla í deildinni fyrir leikinn í dag þar sem þeir höfðu einungis unnið einn leik á meðan Marienlyst hafði einungis tapað einum. Það mátti því búast við því að Marienlyst ættu nokkuð þægilegt verkefni fyrir höndum.

Eftir sterka byrjun í fyrstu hrinu þar sem Marienlyst komust fljótt sex stigum yfir tókst Ishøj að minnka muninn hægt og rólega. Munurinn varð þó aldrei minni en tvö stig og lauk hrinunni með 25-20 sigri Marienlyst.

Marienlyst hófu aðra hrinuna af miklum krafti og skoruðu fyrstu 9 stigin áður en Ishøj fékk sitt fyrsta stig eftir mistök í uppgjöf. Í stöðunni 16-7 kom Ævarr Freyr inn á í móttöku og hjálpaði liðinu við að sigla 25-12 sigri í höfn.

Þriðja hrinan var nokkuð jöfn í upphafi en fljótt fóru heimamenn þó að sigla fram úr. Eins og í annarri hrinunni kom Ævarr Freyr inn á í móttöku í stöðunni 18-12. Hrinunni lauk með 25-13 sigri Marienlyst og leiknum því 3-0.

Eftir leikinn í dag er Marienlyst í öðru sæti deildarinnar með 14 stig eftir 6 leiki. Næsti leikur liðsins er sunnudaginn 11. nóvember klukkan 15 að staðartíma (14 á Íslandi) og verður hann sýndur á Volley TV.