[sam_zone id=1]

Annar góður sigur hjá Þrótti Neskaupstað

Þróttur Neskaupstað tók á móti Þrótti Reykjavík í dag í öðrum leik liðanna þessa helgi, í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Fyrri leikur liðanna fór 3-1 fyrir Þrótti Neskaupstað.

Heimastúlkur byrjuðu fyrstu hrinu betur og komust í 4-1. Gestirnir náðu að jafna í 6-6, en orkan virtist meiri hjá gestgjöfunum sem unnu hrinuna 25-19. Í annarri hrinu vöknuðu gestirnir og höfðu yfirhöndina í hrinunni sem þær kláruðu 25-19.

Þær gulklæddu komu beittar til leiks í þriðju hrinu og náðu góðu forskoti snemma í hrinunni. Jafnt var í stöðunni 11-11, en eftir það sigldi Þróttur Neskaupstað fram úr og vann hrinuna 25-21. Eftir að jafnt var 4-4 og fjórðu hrinu fór Heiða Elísabet í uppgjöf fyrir Þrótt Neskaupstað. Hún olli þeim rauðklæddu miklum vandræðum sem réðu ekkert við uppgjafirnar og á svipstundu var staðan orðin 15-4. Það var of mikill munur fyrir Reykvíkinga að vinna upp og unnu gestgjafarnir hrinuna 25-18 og þar með leikinn 3-1.

Stigahæstu leikmenn Þróttar Neskaupstaðar voru Heiða Elísabet Gunnarsdóttir með 16 stig og Tinna Rut Þórarinsdóttir með 12. Hjá gestunum var Eldey Hrafnsdóttir stigahæst með 20 stig og Elísabet Nhien Yen Huynh með 10 stig.