[sam_zone id=1]

Aarhus valtaði yfir Amager

ASV Aarhus, lið landsliðsmannsins Valþórs Inga Karlssonar, heimsótti í dag Amager VK í dönsku úrvalsdeildinni.

Yfirburðir Aarhus voru ljósir alveg frá upphafi fyrstu hrinu. Þeir voru komnir 8 stigum yfir í stöðunni 12-4 og bættu bara í eftir því sem á leið. Hrinunni lauk með 25-9 sigri Aarhus.

Önnur hrinan var sú jafnasta í leiknum þó Aarhus hafi alltaf verið nokkrum skrefum á undan. Aarhus vann hrinuna 25-18 og gestirnir því komnir 2-0 yfir.

Líkt og í fyrstu tveimur hrinunum var aldrei spurning hver myndi vinna þá þriðju. Aarhus hleyptu Amager aldrei inn í leikinn og unnu hrinuna 25-15 og leikinn þar með 3-0.

Valþór Ingi spilar stöðu frelsingja hjá Aarhus og stóð sig með ágætum í dag. Hann tók 8 sinnum á móti boltanum og var með 75% jákvæða móttöku og 63% fullkomna.

Aarhus situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig eftir 5 leiki og er næsti leikur þeirra gegn Middelfart á miðvikudaginn.