[sam_zone id=1]

KA með sigur í fyrsta leik í Mizunodeildinni

KA var rétt í þessu að sigra Álftanes í þremur hrinum í Mizunodeild kvenna. Bæði liðin spiluðu vel í dag og var mikið um löng rallý og flott stig.

Fyrsta hrina var frekar jöfn til að byrja með en KA tók yfirhöndina í lok hrinunnar. Hulda Elma Eysteinsdóttir var með sterkar uppgjafir í hrinunni sem að lið Álftaness átti í basli með og skoraði hún fjóra ása í röð. KA sigraði fyrstu hrinu að lokum 25-19.

Heimaliðið byrjaði aðra hrinu mjög vel og komust þær í 8-4. Álftanes jafnaði stöðuna í 12-12 og voru þær síðan 14-17 yfir. KA sýndi þá mikla yfirburði og fengu þær 11 stig á meðan Álftanes fékk aðeins eitt . KA stúlkur sigruðu því hrinuna nokkuð örugglega 25-18.

Þriðja hrina var frekar sveiflukend og skiptust liðin á því að fá reglulega þrjú til fjögur stig í röð. KA kláraði hins vegar hrinuna 25-19.

Þetta var fyrsti leikur KA í Mizunodeildinni í vetur en lið KA er sigurstranglegt í deildinni eftir að hafa bætt við sig nokkrum leikmönnum. Helena Kristín Gunnarsdóttir og Paula Del Olmo Gomez komu frá Þrótti Neskaupstað, Gígja Guðnadóttir kom frá dönsku deildinni og Majo Ariza gekk til liðsins frá Spáni. Einnig hafa Hulda Elma Eysteinsdóttir og Birna Baldursdóttir, seru báðar fyrrverandi landsliðskonur í blaki og strandblaki, bæst við í lið KA og styrkja þær liðið töluvert.

Í lið Álftaness vantaði hins vegar Erlu Rán Eiríksdóttur en hún var stigahæsti sóknarmaðurinn í Mizunodeildinni í fyrra og stigahæsti leikmaðurinn samtals í Mizunodeildinni. Erla Rán sneri sig á ökkla á undirbúningstímabilinu og er enn að jafna sig. Það er því gríðalegur missir fyrir Álftanes.

Ekki er til tölfræði úr leiknum ennþá. Fréttin verður uppfærð þegar tölfræðin er tilbúin.

Liðin mætast aftur á morgun kl 15 í KA höllinni. Hægt verður að horfa á beina útsendingu frá leiknum hér.