[sam_zone id=1]

HK sigraði Völsung

Lið HK fékk Völsung í heimsókn í dag þegar liðin mættust í Mizunodeild kvenna.

HK höfðu leikið einn leik gegn Álftanesi og náð í sigur en Völsungur hafði leikið tvo leiki gegn Aftureldingu. Þar náði liðið í 4 stig af 6 mögulegum. HK hóf leikinn í dag betur og settu mikla pressu á gestina með góðum uppgjöfum. Völsungar náðu sér fljótt á strik en misstu HK aftur fram úr sér um miðja hrinuna. Völsungur minnkaði muninn í lok hrinunnar en það dugði ekki til og HK sigraði hrinuna 25-21.

Önnur hrina var jafnari en það sama var uppi á teningnum og í fyrstu hrinunni. HK náðu góðum kafla um miðja hrinuna og héldu áfram að auka muninn. HK sigraði hrinuna nokkuð sannfærandi, 25-17. Í þriðju hrinunni virtist allur vindur úr liði Völsungs og varð hrinan ekki mjög spennandi. HK tryggði sér sigurinn með því að vinna hrinuna 25-13 og unnu leikinn því 3-0.

Elísabet Einarsdóttir var stigahæst í liði HK með 15 stig en Rut Gomez skoraði 9 stig fyrir Völsung. Uppgjafir HK voru sterkar í dag og skoraði liðið 17 stig beint úr uppgjöf gegn einungis þremur hjá Völsung.