[sam_zone id=1]

Gulklæddu sterkari fyrir austan

Þróttur Neskaupstað tók á móti nöfnum sínum úr Reykjavík í dag, í fyrsta deildarleik beggja liða þetta tímabilið.

Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað, en eftir að jafnt var í stöðunni 5-5 sigu heimastúlkur fram úr gestunum. Með sterkum uppgjöfum og of mörgum mistökum Þróttar Reykjavíkur komust heimastúlkur í 19-9. Þá kom góður kafli hjá Þrótti Reykjavík sem endaði með því að jafnt var í stöðunni 24-24. Gestirnir náðu að klára mjög svo kaflaskipta hrinu 26-24.

Heimakonur byrjuðu aðra hrinu betur og komust í 7-3. Eftir það var hrinan mjög jöfn og spennandi og skiptust liðin á að vera með forystuna. Heimastúlkur áttu meira á tanknum í lok hrinunnar og kláruðu hana 25-22.

Þróttur Neskaupstað byrjaði þriðju hrinu líka betur með hjálp frá gestunum sem gáfu þeim fyrstu þrjú stigin með mistökum. Gestirnir komust þá í gang og jöfnuðu og komust yfir 4-3. Hrinan þróaðist líkt og önnur hrina þar sem nokkuð jafnræði var með liðunum, en þær gulklæddu yfirleitt skrefinu framar. Í stöðunni 21-17 fyrir Þrótt Neskaupstað kom góður kafli hjá gestunum sem komust í 23-21. Heimastúlkur voru ekki á því að gefa þeim hrinuna og kláruðu hrinuna 25-23 og voru þar með komnar í 2-1.

Enn og aftur byrjuðu heimastúlkur betur og komust í 7-2 í byrjun fjórðu hrinu. Þá kom gríðarlega stekur kafli hjá gestunum sem fengu næstu 12 stig með sterkum sóknum og uppgjöfum og komust í 14-7. Hrinan virtist vera þeirra en gestgjafarnir voru ekki á því og snéru hrinunni við með sterkum sóknarleik Lauru Gázques og komust í 17-16. Þá virtist allur þróttur úr gestunum og Þróttur Neskaupstað kláraði hrinuna 25-19 og þar með leikinn 3-1.

Stigahæstar í liði Þróttar Neskaupstaðar voru Laura Gázquez Ortega með 18 stig og Tinna Rut Þórarinsdóttir með 14. Í liði Þróttar Reykjavíkur var Eldey Hrafnsdóttir stigahæst með 21 stig og Sunna Þrastardóttir var með 14.

Liðin mætast aftur á morgun í íþróttahúsinu í Neskaupstað klukkan 13.