[sam_zone id=1]

HK fer vel af stað í Mizunodeild kvenna

Í kvöld fór fram leikur HK og Álftanes í Mizunodeild kvenna en bæði lið voru að leika sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu.

Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað en bæði lið áttu í ströggli með móttöku. Bæði lið voru nokkuð lengi í gang en það voru hinsvegar gestirnir sem ýttu frá sér og náðu ágætis forskoti. HK náði hinsvegar fljótt að jafna en Emil Gunnarsson þjálfari HK tók leikhlé í stöðunni 11-11. Álftanes var sterkari aðilinn þegar leið á leikinn og fór með sigur í fyrstu hrinu 25-20.

HK fór betur af stað í annari hrinu og náði þar í fyrstu tvö stigin. Eftir öflugar uppgjafir Þórdísar Guðmundsdóttir þá jafnaði Álftanes 4-4. HK setti þá allt í lás og tók næstu fjögur stig, Álftanes átti í erfiðleikum með að komast framhjá öflugri hávörn HK. HK var með yfirhöndina í hrinunni sem endaði með sigri HK 25-19 en Dýrleif Hanna Sigmundsdóttir leikmaður Álftanes setti þá uppjgöf beint í netið.

Öll orka virtist úr leikmönnum Álftanes eftir aðra hrinu en HK var með mikla yfirburði í þriðju og fjórðu hrinu sem enduðu með sigri HK 25-19 og 25-15.

Bæði lið gerðu full mikið af mistökum í leiknum og fyrir vikið voru gæði leiksins lítil. Alls klikkuðu liðin á 33 uppgjöfum í leiknum sem er langt yfir meðallagi.

Stigahæst í leiknum var Elísabet Einarsdóttir leikmaður HK með 20 stig.

Stigaskor úr leiknum má finna hér.