[sam_zone id=1]

Afturelding byrjar Mizunodeild karla af krafti

Einn leikur fór fram í Mizunodeild karla í kvöld þegar HK tók á móti Aftureldingu í fyrsta leik Mizunodeildar karla í vetur.

Afturelding mætti með sterkt lið til leiks í kvöld en þeir Piotr Kempisty og Radoslaw Rybak voru báðir í byrjunarliði Aftureldingar. Hjá HK var Theódór Óskar Þorvaldsson fjarverandi.

HK byrjaði leikinn nokkuð vel og voru fljótt komnir í 5-2. Eftir tvö sóknarmistök hjá HK og ás frá Radoslaw Rybak þá jöfnuðu Afturelding 5-5. Hrinan var nokkuð jöfn heilt yfir en það voru Afturelding sem höfðu betur að lokum 25-23. HK snéri dæminu við í annari hrinu en eftir að hafa verið með forustu megnið af hrinunni þá voru það tvö stig frá HK í lokin sem tryggðu þeim sigur 25-22. Þriðja hrina var hnífjöfn en hana vann Afturelding 25-23 og komu þeir sér í góða stöðu með 2-1 yfirhönd í leiknum.

Liðsmenn Aftureldingar yfirspiluðu svo heimamenn í fjórðu hrinu en HK sá aldrei til sólar í hrinunni sem endaði með öruggum sigri Aftureldingar 25-17.

Stigahæstir í leiknum voru þeir Andreas Hilmir Halldórsson leikmaður HK og Radoslaw Rybak leikmaður Aftureldingar með 22 stig hvor.

Stigaskor í leiknum má sjá hér.

Mynd: A&R photos