[sam_zone id=1]

Thelma aftur stigahæst í sigri Nitra

Nitra, lið Thelmu Daggar Grétarsdóttur, lék í gær heimaleik gegn Nove Mesto nad Váhom í slóvakísku úrvalsdeildinni.

Thelma hefur komið af krafti inn í slóvakísku deildina og verið með stigahæstu leikmönnum í öllum leikjum liðsins. Engin breyting varð á því í dag en Thelma skoraði 21 stig þegar Nitra náði í annan sigur sinn á tímabilinu. Hún var stigahæst allra í leiknum en liðsfélagi hennar, Lucia Polácková bætti við 20 stigum. Liðið sigraði leikinn 3-1 eftir mikla baráttu, sérstaklega í fyrstu tveimur hrinunum. Thelma er nú með næsthæsta stigaskor deildarinnar, 4.85 stig að meðaltali í hverri hrinu.

Nitra byrjaði fyrstu hrinuna mjög vel og leiddi frá upphafi. Í stöðunni 18-10 virtist þó eitthvað breytast því þá snerist leikurinn við. Gestirnir röðuðu inn stigum og minnkuðu muninn í eitt stig, 18-17. Síðustu stig hrinunnar voru svo æsispennandi en Váhom stálu hrinunni með 23-25 sigri. Önnur hrina var mjög jöfn en Váhom leiddu þó alltaf með örfáum stigum. Váhom komust 21-23 yfir og var útlitið þá orðið svart fyrir Thelmu og félaga. Þær stóðust þó pressuna og komu sér aftur inn í leikinn með því að jafna 24-24. Þær unnu svo hrinuna, 28-26, þar sem að Thelma tryggði sigurinn með sóknarstigi.

Þriðja hrinan svipaði mikið til annarrar hrinu en Nitra höfðu yfirhöndina í þetta skiptið. Þær sigu svo fram úr í lokin og unnu hrinuna 25-19. Fjórða hrinan varð aldrei mjög spennandi og þrátt fyrir að Váhom lagaði stöðuna í seinni hluta hrinunnar sigraði Nitra sannfærandi, 25-13. Þær unnu því leikinn 3-1 og sóttu 3 mikilvæg stig. Næsti leikur liðsins verður heimaleikur gegn VK Presov sem fer fram laugardaginn 3. nóvember. Nitra komust upp fyrir Presov með þessum sigri og verður því spennandi að sjá hvort Nitra geti sótt 3 stig til viðbótar næstu helgi.