[sam_zone id=1]

Strákarnir unnu England en stelpurnar leika um 7.-8. sæti

Bæði U17 lið Íslands hafa lokið leik í dag en strákarnir mættu Englandi klukkan 13 og stelpurnar mættu Svíþjóð klukkan 13:30.

Strákarnir áttu enn eftir að sigra leik í keppninni en áttu fína möguleika í síðustu tveimur leikjunum. Þar leika þeir um 5.-7. sætið og í dag var mótherjinn England. Leikurinn var frábær skemmtun og þurfti oddahrinu til að knýja fram sigur. Liðin skiptust á að vinna hrinur en Englendingar sigruðu fyrstu hrinu 25-18 áður en Ísland sigraði aðra hrinuna 22-25. Englendingar komust svo aftur yfir með 25-17 sigri í þriðju hrinu og Íslendingar jöfnuðu enn með 19-25 sigri í fjórðu hrinunni. Oddahrinunni lauk svo með 13-15 sigri Íslands og fyrsti sigur drengjanna í mótinu staðreynd.

Liðið leikur gegn Danmörku í síðasta leik sínum í fyrramálið og hefst hann klukkan 7 á íslenskum tíma. Íslensku strákarnir mættu Dönum fyrr í mótinu en töpuðu þá 3-0, þrátt fyrir nokkuð jafnan leik.

Stelpurnar töpuðu í morgun 3-1 fyrir Færeyjum og léku gegn Svíþjóð í seinni leik sínum í dag. Liðin leika nú um 5.-8. sæti mótsins og voru sænsku stelpurnar sterkari í dag. Fyrsta hrinan gekk ágætlega hjá íslensku stelpunum en þó vantaði herslumuninn. Fyrstu hrinunni lauk með 18-25 sigri Svíþjóðar og þær sænsku voru enn sterkari í næstu tveimur hrinum. Þeim lauk 12-25 og 11-25. Svíþjóð sigraði leikinn því 3-0 og leikur um 5.-6. sæti.

Ísland leikur gegn Grænlandi á morgun í leik um 7.-8. sætið í keppninni. Sá leikur hefst klukkan 9 á íslenskum tíma. Íslensku stelpurnar sigruðu Grænland örugglega á mánudag og vonandi ná þær að enda mótið á öðrum sigri.