[sam_zone id=1]

Sigur í fyrsta leik Elite Volley Aarhus

Elite Volley Aarhus (EVA), með Unni Árnadóttur innanborðs lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í dönsku deildinni í gær þar sem þær heimsóttu Team Køge Volley. Í þjálfarateymi EVA eru einnig fyrrum KA mennirnir Quentin Moore og Valþór Ingi Karlsson.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi fyrstu hrinu en voru heimakonur í Køge þó alltaf skrefi á undan. Um miðja hrinu skiptu þær þó um gír og skoruðu 7 stig í röð til að opna góða forystu og lauk hrinunni með 25-18 sigri Køge.

Sagan var allt önnur í annarri hrinunni þar sem EVA hreinlega völtuðu yfir Køge. Strax frá upphafi var ljóst að heimakonur ættu ekki mikinn möguleika á sigri í hrinunni og unnu EVA hana 13-25.

Í þriðju hrinunni virtist þetta ætla að snúast við þar sem Køge komust mest 7 stigum yfir, í stöðunni 16-9. EVA minnkuðu muninn hægt og rólega þar til þær komust yfir í stöðunni 22-23 eftir að hafa skorað 5 stig í röð. Hrinunni lauk með 23-25 sigri EVA og þær því 1-2 yfir í hrinum og í vænlegri stöðu.

Fjórða hrinan var svipuð þeirri þriðju að því leiti að jafnt var í upphafi hrinunnar en Køge slitu sig frá EVA undir miðja hrinu. Mestur var munurinn 5 stig, í stöðunni 18-13. EVA minnkuðu muninn undir lok hrinunnar en það var um seinan og vann Køge hana 25-22.

Oddahrinan var jöfn og spennandi allan tímann og skiptu liðin um völl í stöðunni 8-7 fyrir heimakonum í Køge. Í stöðunni 12-11 skoruðu EVA 4 stig í röð og unnu hrinuna því 12-15 og leikinn þar með 2-3.

Unnur var  í byrjunarliði EVA í leiknum og skoraði í honum 4 stig. (1 ás, 1 sóknarstig og 2 hávarnir)