[sam_zone id=1]

Tap gegn ríkjandi meisturum í fyrsta leik hjá Thelmu

Thelma Dögg Grétarsdóttir lék í gær sinn fyrsta leik með nýju liði sínu, Volley project UKF Nitra.

Thelma samdi við liðið fyrir stuttu og fór út til Slóvakíu á fimmtudag. Þrátt fyrir stuttan undirbúning var hún í byrjunarliði Nitra í leik gærdagsins. Lið Nitra hafði leikið einn leik í deildinni áður en Thelma kom en sá leikur tapaðist 3-0. Í gær mætti liðið svo liði ríkjandi meistara Strabag frá Bratislava og lauk þeim leik einnig með 3-0 tapi. Thelma lék allan leikinn hjá Nitra og var stigahæst í sínu liði með 14 stig.

Allar hrinurnar hófust með sama hætti, þar sem að lið Nitra byrjaði betur og var yfir. Um miðjar hrinurnar náðu heimakonur í Strabag hins vegar alltaf yfirhöndinni. Hrinurnar voru allar jafnar en Strabag gekk á lagið í lok hrinanna og tryggði sér á endanum 3-0 sigur. Hrinunum lauk 25-22, 25-19 og 25-22.

Eftir fyrstu tvær umferðirnar er lið Nitra með 0 stig á botni deildarinnar, eins og lið Trnava. Næsti leikur Thelmu og félaga verður einmitt heimaleikur gegn Trnava þar sem bæði lið sækjast eftir fyrsta sigri sínum.