[sam_zone id=1]

Marienlyst tapaði gegn Danmerkurmeisturunum

Ævarr Freyr Birgisson og félagar í Marienlyst fengu í gær ríkjandi Danmerkurmeistara Gentofte í heimsókn.

Þessi lið hafa í gegnum tíðina barist um flesta titla sem í boði eru og var því búist við ansi spennandi leik.

Fyrsta hrinan var jöfn lengst af þar sem hvorugt liðið náði afgerandi forystu en Gentofte hafði þó alltaf yfirhöndina og lauk henni með 21-25 sigri Gentofte. Önnur hrinan fór einnig til Gentofte, 22-25 og Marienlyst því komnir með bakið upp við vegg.

Svipað var uppi á teningnum í þriðju hrinunni þar sem Gentofte var alltaf skrefi á undan en náði þó aldrei afgerandi forystu. Jafnt var í stöðunni 24-24 en þökk sé tveimur slæmum móttökum hjá Marienlyst skoruðu Gentofte síðustu tvö stigin og unnu hrinuna 24-26 og leikinn þar með 0-3.

Þetta var þriðji leikur Marienlyst á innan við viku og er lítill tími til að slaka á þar sem næsti leikur er gegn Middelfart á fimmtudaginn klukkan 20 (18 á íslenskum tíma) og verður sá leikur sýndur á Volley TV.