[sam_zone id=1]

Marienlyst vann Vestsjælland í oddahrinu

Ævarr Freyr Birgisson og félagar hans í Boldklubben Marienlyst fengu VK Vestsjælland í heimsókn til Odense í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Fyrirfram var búist við nokkuð þægilegum sigri Marienlyst en raunin varð önnur. Fyrstu hrinuna unnu heimamenn með ágætis mun, 25-20. Gestirnir mættu töluvert ákveðnari til leiks í næstu hrinu og unnu hana 19-25.

Þriða hrinan hófst hræðilega fyrir Marienlyst þar sem gestirnir komust 5-1 yfir. Þá lifnuðu heimamenn við og jöfnuðu 6-6 og unnu hrinuna að lokum 25-23.

Vestsjælland hreinlega völtuðu yfir Marienlyst í upphafi fjórðu hrinunnar og var munurinn mestur 8 stig, í stöðunni 10-18. Marienlyst neituðu hins vegar að gefast upp og jöfnuðu leikinn í stöðunni 21-21 en þrátt fyrir hetjulega baráttu heimamanna vann Vestjælland hrinuna 25-27.

Oddahrinan varð aldrei spennandi þar sem Marienlyst tóku fljótt forskotið. Hrinunni lauk með 15-10 sigri þeirra og leiknum því 3-2.

Eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki tímabilsins er Marienlyst með 5 stig og jafnt Nordenskov í efsta sæti deildarinnar. Næsti leikur þeirra er á laugardaginn klukkan 16 að staðartíma (14 á Íslandi) þegar þeir fá Gentofte í heimsókn og verður sá leikur sýndur á Volley TV.