[sam_zone id=1]

Sigur í fyrsta leik Marienlyst

Ævarr Freyr Birgisson, fyrrum leikmaður KA og félagar hans í Marienlyst hófu í dag leik í dönsku deildinni þar sem þeir sóttu Hvidovre heim til Kaupmannahafnar.

Marienlyst og Hvidovre mættust síðast í rimmunni um bronsverðlaunin í úrslitakeppninni á síðasta tímabili og hafði Hvidovre þar betur. Marienlyst voru því staðráðnir í að ná fram hefndum í dag.

Leikurinn hófst gríðarlega vel fyrir Marienlyst þar sem þeir skoruðu fyrstu fjögur stigin og var forysta þeirra mest 6 stig í stöðunni 8-2. Hvidovre klóruðu í bakkann eftir því sem leið á hrinuna en það var ekki nóg og lauk henni með 25-22 sigri Marienlyst.

Önnur hrinan hófst sömuleiðis vel fyrir gestina þar sem þeir komust 5-2 yfir. Þá skoruðu Hvidovre 6 stig í röð og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum. Hrinan var gríðarlega jöfn og spennandi eftir þetta þar sem hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá hinu. Í stöðunni 24-23 fyrir Marienlyst gerðu Hvidovre sig seka um ranga uppstillingu í móttöku og fór síðasta stigið þar með til Marienlyst.

Þriðja og fjórða hrinan voru mjög líkar fyrstu tveimur þar sem Marienlyst hófu þær báðar vel. Munurinn milli liðanna var aldrei mikill og vann Hvidovre þriðju hrinuna 22-25 og Marienlyst þá fjórðu 25-21 og leikinn þar með 3-1.

Ævarr var ekki í byrjunarliðinu að þessu sinni en kom inn á í fyrstu, annarri og þriðju hrinu til að hjálpa til í móttöku og vörn.