[sam_zone id=1]

HM 2018 : Allt eftir bókinni á fjórða keppnisdegi

Átta leikir fóru fram á HM karla í dag en tiltölulega lítið var um spennu þennan daginn. Engin óvænt úrslit urðu en stórþjóðirnar gerðu engin mistök.

Frakkar, Rússar og Búlgarir áttu leiki í dag og gáfu andstæðingum sínum litla möguleika. Rússland fór sérstaklega illa með Túnis en annarri hrinunni í leik þeirra lauk með 25-6 sigri Rússa. Finnland náði í sinn fyrsta sigur á mótinu þegar liðið sigraði Kúbu 3-1 og Ástralir sigruðu Kamerún 3-1 eftir brösuga byrjun.

Á morgun fara einnig fram átta leikir, tveir í hverjum riðli, og verður spennan líklega öllu meiri en í dag. Bandaríkin og Rússland mætast í toppslag C-riðils en auk þeirra berjast Serbar um efsta sætið í þeim riðli. Einnig mæta gestgjafar Ítalíu liði Argentínu en bæði þessi lið hafa spilað hratt og skemmtilegt blak undanfarið.

Úrslit dagsins

A-riðill

Japan 1-3 Slóvenía (20-25, 25-22, 20-25, 13-25). Yuki Ishikawa skoraði 15 stig fyrir Japan en Tine Urnaut skoraði 19 stig fyrir Slóveníu.

Argentína 3-0 Dóminíska lýðveldið (26-24, 25-15, 25-15). Cristian Poglajen var stigahæstur hjá Argentínu með 12 stig en Henry Omar Tapia Santana og Henry Antonio Lopez Capellan skoruðu 11 stig hvor fyrir Dóminíska lýðveldið.

B-riðill

Kína 1-3 Holland (21-25, 13-25, 25-23, 13-25). Jiang Chuan skoraði 20 stig fyrir Kína en Nimir Abdel-Aziz skoraði 22 stig fyrir Holland.

Frakkland 3-0 Egyptaland (25-22, 25-23, 25-16). Thibault Rossard var stigahæstur hjá Frakklandi með 13 stig en Ahmed Abdelhay skoraði 14 stig fyrir Egypta.

C-riðill

Ástralía 3-1 Kamerún (21-25, 25-17, 25-22, 25-20). Lincoln Alexander Williams var öflugur í liði Ástralíu og skoraði 22 stig en David Patrick Feughouo skoraði 13 stig fyrir Kamerún.

Rússland 3-0 Túnis (25-19, 25-6, 25-19). Maxim Mikhailov skoraði 11 stig fyrir Rússa en í liði þeirra voru 9 leikmenn sem skoruðu stig í leiknum. Hamza Nagga var stigahæstur í liði Túnis með 9 stig.

D-riðill

Finnland 3-1 Kúba (25-19, 25-19, 20-25, 25-16). Allir byrjunarliðsmenn Finnlands skoruðu á bilinu 9 til 12 stig en hjá Kúbu var Miguel David Gutierrez Suarez öflugastur með 17 stig.

Búlgaría 3-0 Púertó Ríkó (25-16, 25-18, 25-21). Nikolay Penchev skoraði 14 stig fyrir Búlgaríu en Pablo Guzman skoraði 11 stig fyrir Púertó Ríkó.