[sam_zone id=1]

HM 2018 : Tíu leikir fóru fram í dag

Mikið var um að vera á HM karla í dag en tíu leikir fóru fram. Nú hafa öll lið leikið fyrstu leiki sína á mótinu.

Fjögur lið höfðu nú þegar hafið leik á mótinu en opnunarleikirnir tveir fóru fram á sunnudag. Þá sigruðu Ítalir Japani og Búlgarir höfðu betur gegn Finnlandi. Í dag léku svo hin 20 liðin á mótinu og urðu leikir dagsins því 10 talsins. Hæst bar 3-2 sigur Bandaríkjanna á Serbíu en þessi tvö lið voru talin líklegust til að ná 2. sæti síns riðils á eftir Rússum sem leika einnig í sama riðli. Rússar líta mjög vel út og sigruðu Ástrali 3-0.

Núverandi heimsmeistarar Póllands áttu ekki sinn besta dag en sigruðu Kúbu þó 3-1. Öll úrslit má svo sjá hér að neðan. Á morgun fara fram 8 leikir og hefjast tveir leikir klukkan 14 á íslenskum tíma. Stærsti leikur morgundagsins er þó án nokkurs vafa leikur Brasilíu og Frakklands en hann hefst klukkan 17:30 á íslenskum tíma.

Úrslit dagsins

A-riðill

Dóminíska lýðveldið 1-3 Slóvenía (25-22, 13-25, 13-25, 17-25). Tine Urnaut var stigahæstur hjá Slóveníu með 18 stig en Henry Antonio skoraði 12 stig fyrir Dóminíska lýðveldið.

Belgía 3-1 Argentína (25-19, 25-19, 22-25, 25-19). Sam Deroo skoraði 21 stig fyrir Belgíu en Facundo Conte var stigahæstur Argentínumanna með 11 stig.

B-riðill

Frakkland 3-0 Kína (25-20, 25-21, 25-17). Stephen Boyer skoraði 23 stig fyrir Frakkland en Jiang Chuan skoraði 10 stig fyrir Kína.

Holland 0-3 Kanada (15-25, 23-25, 18-25). Hollendingurinn Nimir Abdel-Aziz var stigahæstur allra með 13 stig en Nicholas Hoag var stigahæstur hjá Kanada með 12 stig.

Brasilía 3-0 Egyptaland (25-17, 25-22, 25-20). Wallace De Souza og Douglas Souza skoruðu báðir 12 stig fyrir Brasilíu en Ahmed Abdelhay skoraði 13 stig fyrir Egypta.

C-riðill

Kamerún 3-0 Túnis (25-20, 28-26, 25-21). Kamerúninn David Patrick Feughouo skoraði 21 stig í leiknum og sömuleiðis Hamza Nagga frá Túnis.

Ástralía 0-3 Rússland (21-25, 20-25, 16-25). Maxim Mikhailov skoraði 17 stig fyrir Rússa en Paul Carroll skoraði 13 stig fyrir Ástralíu.

Bandaríkin 3-2 Serbía (15-25, 25-14, 21-25, 25-20, 15-10). Aaron Russell skoraði 19 stig fyrir Bandaríkin en Serbinn Uros Kovacevic skoraði einnig 19 stig.

D-riðill

Íran 3-0 Púertó Ríkó (25-19, 25-14, 25-18). Mohammed Seyed var stigahæstur hjá Íran með 11 stig en Maurice Torres skoraði 10 stig fyrir Púertó Ríkó.

Kúba 1-3 Pólland (18-25, 19-25, 25-21, 14-25). Artur Szalpuk skoraði 20 stig fyrir Pólland en Javier Octavio skoraði 12 stig fyrir Kúbu.