[sam_zone id=1]

HM karla hefst á sunnudag

Heimsmeistaramótið í blaki karla 2018 fer fram dagana 9.-30. september og halda Ítalía og Búlgaría mótið í sameiningu.

 

Opnunarleikur mótsins verður viðureign Ítalíu og Japan í A-riðli sem fer fram á sunnudag. Seinna um kvöldið leikur Búlgaría svo gegn Finnlandi í D-riðli. Riðlarnir verða fjórir talsins og eru 6 lið í hverjum riðli. Því taka 24 þjóðir þátt í lokakeppni HM að þessu sinni. Þetta er fyrsta heimsmeistaramót FIVB sem fleiri en ein þjóð heldur. Leikið verður í sex ítölskum borgum og þremur búlgörskum, þar á meðal Róm og Sofia, höfuðborgum þjóðanna.

Riðlakeppninni lýkur 18. september og tekur önnur umferð mótsins þá við. Fjögur efstu lið hvers riðils fara áfram í aðra umferðina. Í annarri umferðinni taka fjórir fjögurra liða riðlar við og þar fara efstu lið hvers riðils áfram í þriðju umferð. Einnig komast tvö bestu liðin sem höfnuðu í 2. sæti síns riðils í þriðju umferðina. Í þriðju umferðinni er enn skipt í riðla og eru þeir tveir talsins. Þrjú lið skipa hvorn riðil og fara efstu tvö lið hvors riðils í undanúrslit mótsins. Úrslitahelgin (Undanúrslit og leikir um verðlaun) fer svo fram Turin á Ítalíu.

Pólverjar eru ríkjandi heimsmeistarar frá því 2014 en lið þeirra hefur tekið miklum breytingum frá þeim tíma. Einungis 4 leikmenn eru í leikmannahóp Póllands fyrir þetta mót sem voru í sigurliðinu árið 2014. Blakhefðin í Póllandi er þó mikil og er ávallt búist við miklu af liðinu. Frekari upplýsingar um mótið má finna með því að smella hér.