[sam_zone id=1]

100.000 króna úrslitaleikur í strandblaki

Úrslitaleikurinn í Áskorendamóti Strandblak.is fer fram á morgun þegar Karl Sigurðsson og Guðmundur P. Guðmundsson keppa við Kára Hlynsson og Sigþór Helgason. Sigurvegararnir í leiknum fá 100.000 kr í verðlaun en verðlaunaféð kemur frá skráningagjaldi liðanna. Leikurinn fer fram kl 10:30 á strandblaksvöllunum við Laugardalslaugina.

Áskorendamótið er karladeild í strandblaki sem var stofnað á þessu ári. Nítján lið skráðu sig til leiks í byrjun sumars og hófst mótið formlega þann 1. júní. Síðan þá hafa sextíu leikir verið spilaðir og síðustu leikirnir fara fram í dag og á morgun.

Einnig eru veitt verðlaun fyrir annað og þriðja sæti en liðið sem lendir í öðru sæti fær 32.000 kr og liðið í þriðja sæti fær 20.000 kr. Það er því mikið í húfi og um að gera að skella sér í Laugardalinn um helgina og fylgjast með.

Karl Sigurðsson, eigandi Strandblak.is

Karl Sigurðsson, eigandi Strandblak.is, sagði í samtali við Blakfréttir að það væri mikil ánægja með þetta mót meðal strákanna og að því sé mjög líklegt að boðið verði upp á samsvarandi mót fyrir stelpurnar næsta sumar.

 

Myndir: Strandblak.is