[sam_zone id=1]

Svartfellingar öflugir í dag

Íslenska karlalandsliðið mætti Svartfjallalandi í undankeppni EM í Digranesi í dag. Fyrir leikinn var Svartfjallaland í efsta sæti riðilsins og Ísland í því neðsta. Liðin mættust í Svartfjallalandi 22. ágúst þar sem heimamenn unnu 3-0 sigur (25-15, 25-20, 25-15).

Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Andreasi Hilmi Halldórssyni í díó, Lúðvíki Má Matthíassyni og Alexander Arnari Þórissyni á köntunum, Hafsteini og Kristjáni Valdimarssonum á miðjunum, Mána Matthíassyni í uppspili og Valþóri Inga Karlssyni í stöðu frelsingja.

Fyrsta hrina byrjaði í járnum og var jafnt á nær öllum tölum og aldrei skildi meira liðin að en tvö stig, fyrr en Svartfjallaland komst í 17-14. Þá tók Chrisophe Achten, þjálfari íslenska liðsins leikhlé. Íslenska liðið var ekki hætt og átti góðan sprett í lok hrinunnar sem endaði þó með sigri Svartfjallalands 25-20.

Svartfellingar byrjuðu aðra hrinu af krafti og komust í 7-0 með sterkum uppgjöfum Marko Vukasinovic, sem mældust einhverjar á 107 km. hraða. Íslenska liðið reif sig í gang og minnkaði muninn 9-10. Bæði lið áttu góða kafla í hrinunni en sterkar uppgjafir gestanna komu íslenska liðinu í vandræði sem endaði með sigri Svartfellinga 25-20.

Byrjunarlið í þriðju hrinu var það sama og í fyrri tveimur fyrir utan að Bjarki Benediktsson kom inn á fyrir Andreas Hilmi. Lið Svartfjallalands byrjaði hrinuna betur og komst í 4-1. Þeir héldu forystunni út hrinuna, en íslenska liðið var aldrei langt á eftir. Í stöðunni 14-10 tók þjálfari íslenska liðsins leikhlé. Þá kom góður kafli hjá strákunum þegar þér minnkuðu muninn í 15-16. Svartfellingar sættu sig ekki við það settu í næsta gír og síðara leikhlé íslenska liðsins var tekið í stöðunni 20-16. Eftir æsispennandi lokamínútur kláruðu Svartfellingar hrinuna 25-21 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur í íslenska liðinu var Alexander Arnar Þórisson með 11 stig. Næstur á eftir honum var Hafsteinn Valdimarsson með 6 stig.

Eins og kvennaliðið er karlaliðið nú komið í hlé frá undankeppni EM, en næstu leikir eru í janúar 2019.