[sam_zone id=1]

3-0 tap fyrir sterkum Ísraelum

Íslenska kvennalandsliði mætti Ísrael í dag í undankeppni EM. Fyrri leikur liðanna fór fram í Ísrael 22. ágúst sem heimastúlkur unnu 3-0 (25-19, 25-20, 25-18).

Byrjunarlið íslenska liðsins var skipað þeim Hjördísi Eiríksdóttur og Elísabetu Einarsdóttur á köntunum, Hönnu Maríu Friðriksdóttur og Erlu Rán Eiríksdóttur á miðjunum, Birtu Björnsdóttur í uppspili, Thelmu Dögg Grétarsdóttur í díó og Kristinu Apostolovu í stöðu frelsingja.

Ísraelska liðið byrjaði leikinn betur og komst í 2-0 og jók jafnt og þétt forskotið. Íslenska liðið átti í erfiðleikum með sterka hávörn ísraelska liðsins í fyrstu hrinu, en gestirnir fengu 5 stig úr hávörn í hrinunni. Í stöðunni 19-9 gerði þjálfari íslenska liðsins, Borja González Vicente, breytingu á liðinu þegar Líney Inga Guðmundsdóttir kom inn á fyrir Hjördísi. Hrinan endaði 25-11 fyrir Ísrael.

Byrjunarlið íslenska liðsins var það sama og í fyrstu hrinu nema Matthildur Einarsdóttir byrjaði í uppspilinu. Eftir að jafnt var í stöðunni 1-1 komust þær ísraelsku í 4-1. Í stöðunni 8-3 fyrir Ísrael tók Borja leikhlé. Það dugði ekki til, því þær ísraelsku héldu áfram að auka við forskotið. Það endaði á að Borja tók sitt síðara leikhlé í stöðunni 12-5. Birta Björnsdóttir kom inn á fyrir Matthildi í stöðunni 14-6. Í stöðunni 23-11 kom Unnur Árnadóttir inn á fyrir Erlu Rán. Ísraelska liðið vann hrinuna 25-12. 

Það var allt annað að sjá til íslenska liðsins í þriðju hrinu. Íslenska liðið komst í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar þær komust í 3-2 í þriðju hrinu. Í stöðunni 7-5 fyrir Ísland tók ísraelski þjálfarinn leikhlé. 

Íslenska liðið náði mest þriggja stiga forskoti í stöðunni 9-6. Þá kom góður kafli hjá Ísraelum sem jöfnuðu og komust í 10-9, þegar Borja tók sitt fyrsta leikhlé í hrinunni. Ísraelska liðið komst á skrið og í stöðunni 14-9 þegar ísraelska liðið var búið að fá 8 stig í röð tók Borja sitt annað leikhlé í hrinunni. Íslenska liðið átti ágætis skorpu undir lokinn en þær ísraelsku voru sterkar og unnu hrinuna 25-18 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæst í íslenska liðinu var Thelma Dögg Grétarsdóttir með 10 stig.

Liðið fær nú hlé frá undankeppni EM en síðustu leikir keppninnar fara fram í janúar á næsta ári.