[sam_zone id=1]

Bæði lið stefna á sína fyrstu sigra um helgina

Landsliðin okkar halda áfram að vera í eldlínunni um helgina en á morgun fara fram tveir leikir í Digranesi.

Kvennalandsliðið mætir Ísrael kl 15:00 og karlalandsliðið mætir Svartfjallalandi kl 18:00, bæði lið spiluðu útileiki gegn þessum andstæðingum í vikunni og töpuðust þeir leikir 3-0 þrátt fyrir góða spretti.

Strákarnir hófu leik gegn Svartfjallalandi á miðvikudaginn og áttu þeir fína spretti í leiknum en þjálfari liðsins Christophe Achten sagði í viðtali við heimasíðu CEV að liðið hefði átt frábæran leik gegn sterku liði Svartfjallalands. Leiknum lauk með 3-0 sigri Svartfjallalands (25-15, 25-20, 25-15). Stigahæstur í liði íslands var Andreas Hilmir Halldórsson með 7 stig.

Stelpurnar mættu svo Ísrael á miðvikudagskvöld og áttu þær einnig fína spretti í leiknum. Borja Gonzalez Vicente þjálfari íslands sagði í viðtali við heimasíðu CEV að hver útileikur væri mikil reynsla fyrir liðið, sem á mikið eftir ólært. Leiknum lauk með sigri Ísrael 3-0 (25-19, 25-20, 25-18). Stigahæst í liði íslands í leiknum var Elísabet Einarsdóttir með 10 stig.

Bæði lið leita því að sínum fyrsta sigri í keppninni en bæði lið hafa tapað öllum sínum leikjum 3-0. Liðin sýndu frábæra takta um síðustu helgi þegar liðin léku sína fyrstu heimaleiki í Digranesi. Það er því von að bæði lið nái góðum úrslitum á morgun en mikilvægt er að fólk fjölmenni í Digranesið og hvetji liðin áfram.

Leikir helgarinnar:

15:00 Ísland – Ísrael, kvk
18:00 Ísland – Svartfjallaland, kk