[sam_zone id=1]

Karlalandsliðið situr fast í París

Íslenska karlalandsliðið er enn á heimleið frá Svartfjallalandi. Frestanir á flugi urðu til þess að hópurinn gistir í París í nótt.

 

Strákarnir og starfsliðið lögðu af stað frá bænum Bar um 6:30 á staðartíma og lá leiðin til höfuðborgarinnar Podgorica. Þaðan átti hópurinn flug til Parísar klukkan 8:55 en þegar á flugvöllinn kom bárust þær fréttir að fluginu yrði seinkað. Óvíst var hvað olli seinkuninni og hversu löng hún yrði. Eftir langa bið á flugvellinum fengust þær upplýsingar að hópurinn skyldi mæta í innritun um klukkan 16 og var því um að ræða ansi marga klukkutíma.

Hópurinn fór þá á hótel örstutt frá flugvellinum þar sem þeir fengu að geyma töskur og gegn vægu gjaldi fékkst aðgangur að sundlaugargarði hótelsins. Sá reyndist glæsilegur og nutu drengirnir og þjálfarar sólarinnar. Hópurinn fékk svo hádegismat á hótelinu og voru skammtastærðir þar til fyrirmyndar svo enginn fór svangur út á flugvöll í næstu tilraun. Þegar komið var á flugvöllinn, rétt fyrir klukkan 16, var orðið ljóst að stefnt var að því að fljúga klukkan 18. Það gekk nokkurn veginn eftir og lenti vélin í París um 21.

Ákveðið var að nýta biðina í Podgorica til að fá sér smá lúr.

Þá var hins vegar löngu orðið ljóst að seinna flug hópsins til Íslands væri löngu farið og því þurfti að gista eina nótt í París. Fararstjórinn, Valdimar Hafsteinsson, átti ekki í vandræðum með að bjarga því og í þessum töluðu orðum eru flestir komnir undir sæng á glæsilegum herbergjum sínum á Best Western hótelinu við Charles De Gaulle flugvöllinn í París. Stefnt er að því að fljúga heim til Íslands stuttu eftir hádegi á morgun og ætti hópurinn þá að komast heim um 16 að íslenskum tíma.

Það er vonandi að þessu ævintýri fari að ljúka enda á karlaliðið heimaleik gegn Svartfellingum á sunnudag. Sá leikur er sá síðasti í þessari leikjatörn liðsins og hefst leikurinn klukkan 18 og fer fram í Digranesi.