[sam_zone id=1]

Grátlegt tap gegn Ísrael

Kvennalandsliðið tapaði í kvöld gegn Ísrael í undankeppni EM en leikið var í Raanana í Ísrael.

Ísland og Ísrael höfðu fyrir leikinn bæði tapað sínum leikjum og því nokkuð ljóst að um hörkuviðureign yrði að ræða. Stelpurnar mættu af miklum krafti til leiks og voru yfir 8-3 í byrjun fyrstu hrinu. Stelpurnar settu mikinn kraft í uppgjafinar og settu þær ísraelsku í mikil vandræði. Ísraelarnir jöfnuðu hinsvegar 8-8 og skiptust liðin á stigum fram að 12-12 en þá fékk Ísrael 4 stig í röð og náðu tökum á hrinunni. Ísrael náðu að lokum sigri 25-19. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir fyrirliði íslands fór meidd af velli í hrinunni.

Heimastúlkur mættu sterkari til leiks í 2.hrinu og komust í 4-1. Þrátt fyrir að Ísrael hafi komist í 19-10 þá gáfust stelpurnar ekki upp og minnkuðu muninn í 22-18 en Ísrael var sterkari aðilinn að lokum og vann hrinuna 25-20.

Útlitið var orðið svart fyrir stelpurnar en þær byrjuðu þó af krafti í 3.hrinu og tóku fyrstu tvö stigin. Leikurinn var í járnum í þriðju hrinu en undir lokin voru það heimastúlkur sem höfðu betur og unnu þær þriðju hrinu 25-18 og leikinn þar með 3-0.

Gífurleg vonbrigði fyrir Ísland að tapa leiknum 3-0 en ísraelska liðið er alls ekki langt frá því íslenska og því nokkuð ljóst að ef Ísland ætlar sér einhverja hluti í keppni sem þessari þá verða þær að taka hrinur og sigur á móti liðum eins og Ísrael.

Ísland og Ísrael mætast aftur á sunnudaginn og þá í Digranesi og er nokkuð ljóst að íslensku stelpurnar ætla að gera betur í þeim leik og skiptir þær miklu máli að fá fullt hús af fólki.

Stigahæst í liði Íslands í leiknum var Elísabet Einarsdóttir með 10 stig.

Byrjunarlið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum: Birta Björnsdóttir í uppspili, Elísabet Einarsdóttir og Hjördís Eiríksdóttir á köntunum, Erla Rán Eiríksdóttir og Hanna María Friðriksdóttir á miðjunni, Thelma Dögg Grétarsdóttir í díó og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir og Kristina Apostolova skiptu með sér stöðu frelsingja.